Stjórnarskipunarlög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 12:03:58 (958)


[12:03]
     Frsm. stjórnarskrárnefndar (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Hv. stjórnarskrárnefnd hefur fjallað um 1. mál þessa þings, frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta er sú stjórnarskrárbreyting sem snýr að mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
    Frv. var eins og kunnugt er samþykkt á seinasta þingi og að því loknu var þing rofið. Nú kemur frv. á ný til meðferðar í þinginu. Í 79. gr. stjórnarskrárinnar er ákvæði þess efnis að samþykki Alþingi ályktunina óbreytta skuli hún staðfest af forseta lýðveldisins og sé hún þá gild stjórnarskipunarlög, sem þýðir að það má engu breyta við seinni meðferð málsins því ef einhverju er breytt í því stjórnarskrárfrv. sem til meðferðar er þá fellur það dautt niður. Af þessari ástæðu var frv. ekki sent til umsagnar og nefndin gerir ekki neinar tillögur um breytingar á frv. Þetta vildi ég samt taka fram hér vegna þess að ég hef orðið var við það að áhugaaðilar um breytingar á stjórnarskránni hafa sumir hverjir gert sér vonir um að nú við seinni meðferð málsins væri hægt að koma fram lagfæringum eða leiðréttingum, en svo er ekki. Það er engu hægt að breyta. Það er einungis hægt að samþykkja frv. eða hafna því. Nefndin gerir sem sagt tillögu um að frv. verði samþykkt óbreytt.
    Í nefndinni kom fram það sjónarmið, og um það var full samstaða, að nefndin væntir þess fastlega að þessu starfi verði áfram haldið sem hafið er með endurskoðun 63.--78. gr. stjórnarskrárinnar.
    Vissulega hefur stjórnarskráin oft áður verið endurskoðuð og má segja að allir aðrir kaflar stjórnarskrárinnar hafi gengið í gegnum einhverja endurskoðun, allir aðrir en sá sem hér er verið að fjalla um. Engu að síður er þörf á því að endurskoða aðra þætti stjórnarskrárinnar og væntir nefndin þess eindregið að stjórnarskrárnefnd haldi starfi sínu áfram og skili tillögum um frekari endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég vil sérstaklega nefna í þessu samhengi að kaflinn um skipun dómsvaldsins hefur ekki lengi verið endurskoðaður og er alveg sérstök ástæða til þess að hann sé tekinn til meðferðar, þó það yrði ekki gert að þessu sinni. Það er ástæðulaust að tefja störf þingsins að öðru leyti við umfjöllun um þetta mál. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt.