Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 13:47:08 (962)


[13:47]
     Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta sumarþing hefur nú staðið í u.þ.b. mánuð og á þessu þingi hafa verið tekin fyrir ýmis mál sem menn hafa talið brýnt að afgreiða með sérstakri tilvísun til þeirra fyrirheita sem gefin voru í kosningunum. Í þeim anda hefur t.d. verið unnið að því undanfarnar vikur að afgreiða breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða vegna þess að ýmsir hv. frambjóðendur og flokkar töldu nauðsynlegt að

efna það fyrirheit sem þeir töldu sig hafa gefið í kosningunum, að greiða úr vanda smábátaeigenda. Ég ætla ekki að endurvekja umræður um hvernig til tókst, en hitt er alveg ljóst að vandinn í þessu þjóðfélagi er margþættur. Á síðasta þingi var breið samstaða meðal margra flokka, m.a. míns flokks, Framsfl., og annarra um að greiðsluvandi heimilanna, skuldir heimilanna í landinu, væri svo brýnt vandamál að á því þyrfti að taka tafarlaust. Og kannski hefur ekkert eitt fyrirheit átt jafnmikinn hljómgrunn í aðdraganda kosninganna og allt fram til lokadags fyrir kjördag eins og krafan um að tafarlaust yrði að efna til aðgerða til að taka á greiðsluvanda heimilanna og forða því gjaldþroti, þeim hörmungum, þeirri fátækt og þeim erfiðleikum sem þar blasa við.
    Á síðasta þingi flutti þingflokkur Framsfl. heilsteypt frv. um greiðsluaðlögun. Það frv. var byggt á ítarlegri vinnu sem hv. núv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, hafði forustu fyrir og er nú vont að hann þoli ekki við í sæti sínu undir þessari umræðu og sé kominn hér í dyrnar. Gott að hann hlustar vel.
    Núv. hæstv. félmrh. hefur hins vegar verið iðinn við að finna alls konar afsakanir fyrir því að grípa ekki til tafarlausra aðgerða í þessum málum. Hann telur að hægt sé að bíða, það þurfi að skoða málin, það þurfi að kanna þau. Ekkert slíkt var sagt af hálfu Framsfl. hér á síðasta þingi eða í kosningabaráttunni. Ég mun vitna eftir augnablik í nokkur ummæli forustumanna Framsfl., m.a. núv. hæstv. viðskrh. og núv. hæstv. félmrh., um brýna nauðsyn aðgerða í þessum efnum. En hæstv. félmrh. lýsti því hér yfir sl. laugardag, þegar fram fór umræða um húsnæðismál, að hann óskaði eftir aðstoð þingsins og samvinnu þingsins við að greiða úr þessum vandamálum og grípa til aðgerða. Á grundvelli þessarar yfirlýsingar ákváðum við, sá sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Kristín Ástgeirsdóttir, að flytja á nýjan leik þetta frv. Framsfl. um greiðsluaðlögun og bjóða til samvinnu um að það yrði lögfest hér og nú á þessu sumarþingi.
    Vandi heimilanna í landinu vegna skulda er ekki minni en vandi krókaleyfisbátanna. Vandi heimilanna í landinu er ekki minni en vandinn varðandi sölu áfengis á Íslandi á grundvelli EES-samningsins. Vandi heimilanna á Íslandi er ekki minni heldur en að afgreiða GATT-samkomulagið. Þess vegna ákváðum við að láta reyna á það hér á þessu sumarþingi, sérstaklega í ljósi þess að það stendur mun lengur en ætlað var í upphafi, hvort menn séu reiðubúnir að lögfesta sinn eigin texta. Sérstaklega vegna þess að í frv. eins og það var flutt fyrr á þessu ári er gildistökuákvæðið 1. júlí 1995. Það var þess vegna ekki ætlunin af hálfu Framsfl. á sínum tíma að frv. fæli í sér gildistöku laga fyrr en við upphaf næsta mánaðar. Nú gefst tími til að standa við stóru orðin.
    Í þeirri greinargerð sem lögð var fram og við vitnuðum til í okkar greinargerð, stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tilgangur þessa frumvarps er að gefa þeim einstaklingum sem eru í alvarlegum og viðvarandi greiðsluerfiðleikum möguleika á því að ná stjórn á fjármálum sínum því að neyðarástand hefur skapast á þúsundum heimila í landinu þar sem gjaldþrot blasir við mörgum þeirra.``
    Þetta neyðarástand stendur enn, hæstv. félmrh. og hæstv. viðskrh. Og nú virðist vera ætlun ríkisstjórnarflokkanna og þar með Framsfl., að aðhafast ekkert í þessum málum fyrr en í fyrsta lagi einhvern tímann undir áramót. Hvað sögðu þessir ágætu menn hér fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan? Hæstv. núv. viðskrh. sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hér liggur fyrir frv. til laga um greiðsluaðlögun sem allur þingflokkur framsóknarmanna hefur flutt. Það tekur á þeim vandamálum sem snúa að því fólki sem hefur misst stjórn á fjármálum sínum, sem er í viðvarandi og langvarandi greiðsluerfiðleikum.``
    Þar segir einnig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er rétt hjá hæstv. félmrh.`` --- það var þáv. félmrh., og bið ég nú hæstv. viðskrh. að hlusta á sín eigin orð --- ,,að við framsóknarmenn erum dálítið uppteknir af þessum greiðsluvanda heimilanna. Það er hárrétt, hæstv. félmrh., og væri betur að hæstv. félmrh. væri líka dálítið upptekinn af þeirri stöðu.``
    Það er greinilegt að Framsfl. virðist ekki vera jafnupptekinn nú og hann var á sínum tíma af þessum vanda. En hæstv. núv. viðskrh. sagði meira. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á flokksþingi okkar framsóknarmanna í lok nóvember 1994 lögðum við fram skýra og markvissa stefnu um það hvernig við vildum taka á greiðsluvanda heimilanna, hvernig við vildum ganga frá kjarasamningum o.s.frv.``
    Þegar í nóvember 1994 var, að sögn núv. hæstv. viðskrh., Framsfl. tilbúinn til að takast á við þennan vanda. Stefnan eins og hún birtist í greiðsluaðlögunarfrv. hafði því verið í mótun mjög lengi og á bak við hana var ítarleg vinna eins og henni var lýst af hálfu Framsfl. Nú kemur hins vegar félmrh. Framsfl. og segir: Það þarf nefnd, það þarf skoðun, það þarf athugun, það þarf bið, það þarf könnun. Eru þessir ágætu menn búnir að gleyma stórorðum yfirlýsingum sínum um greiðsluvanda heimilanna. ( GÁ: Engu gleymt.) Engu gleymt segir hv. þm. Guðni Ágústsson. Þá langar mig til að spyrja hvort hv. þm. hefur heldur ekki gleymt sínum eigin orðum sem voru á þá leið, með leyfi hæstv. forseta, --- því miður næ ég ekki ræðustíl þingmannsins þannig að menn verða að ímynda sér tóninn í hans eigin rödd þegar hann flutti þessi orð hér í ræðustólnum:
    ,,Ég tek undir með þingmönnum að mér ógna þessi vindský í málefnum fjölskyldunnar sem nú blasa við. Því er mikilvægt að Alþingi biðji hæstv. félmrh. að taka saman skýrslu um skuldastöðu heimilanna og hvernig Ísland er í samanburði við helstu nágranna- og viðskiptalönd. Fyrir þessu verðum við að

beita okkur.`` ( GÁ: Hárrétt.) Hárrétt segir hv. þm. Honum ógnuðu vindskýin. ( GÁ: Og gera enn.) Og gera enn. En þessi skýrsla var unnin, hv. þm., og eftir að þessi orð féllu, það var í desember 1993, 10. des. fyrir hádegi, svo það sé haft nákvæmt, þá fór Framsfl. í þessa vinnu, lagði fram tillögur á sínu flokksþingi, kom með frv. á síðasta þingi, en nú allt í einu er hv. þm. Guðni Ágústsson ekki tilbúinn að standa við stóru orðin. (Gripið fram í.) Hæstv. viðskrh. ekki tilbúinn að standa við stóru orðin, orðin um fátæktina, orðin um gjaldþrotin, orðin um vanda heimilanna, orðin um persónulegar hörmungar og erfiðleika einstaklinga.
    Ég er hér með þykkan bunka af tilvitnunarsafni framsóknarmanna þar sem þeir lýstu á síðustu mánuðum og á síðasta þingi með stærri orðum en nokkur annar þingflokkur notaði í þessum sal erfiðleikum heimilanna og hve brýnt væri að grípa til þessara aðgerða og jafnframt það að framsóknarmenn væru með öll þau ráð í sinni hendi. Þess vegna höfum við, flm. þessa frv., til þess að mynda hér breiða pólitíska samstöðu um að gripið sé til þessara aðgerða, endurflutt þetta frv. Við sýndum það í gær, þingmenn Alþb., að við vorum tilbúnir að standa með stjfrv. um afgreiðslu GATT-málsins og hefja okkur yfir ágreining stjórnar og stjórnarandstöðu með hefðbundnum hætti og nú spyrjum við þingmenn Framsfl.: Eru þeir tilbúnir að greiða atkvæði með sínu eigin frv. eða ekki?
    Virðulegi forseti. Ég fer fram á það að þetta frv. fái hraða afgreiðslu hér í nefndum þannig að áður en þingi lýkur fari fram atkvæðagreiðsla um frv. þannig að sá þingmeirihluti sem er fyrir hendi í þinginu til að ganga til móts við heimilin í landinu fái að birtast í þeirri löggjöf sem hér er gerð tillaga um.