Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:22:09 (967)

[14:22]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir skörulega ræðu. Það var einmitt svo að ræða hans einkenndist af því sem ræður margra mikilhæfra stjórnmálamanna hafa einkennst af að þegar þeir vilja skamma Kína leggja þeir í Albaníu. Obbinn af ræðu hv. þm. fólst í því að skamma Alþfl. fyrir að hafa ekki gert neitt en undir lok ræðu hv. þm. kom hann að því sem hann veit að var þröskuldurinn í vegi þessa máls á tíma síðustu ríkisstjórnar og er þröskuldurinn líka í upphafi núv. ríkisstjórnar. Það er staðreynd að það er Sjálfstfl. og sérstaklega hæstv. fjmrh. sem hafa lagst þvert gegn málinu. Það má heita, herra forseti, að frv. til laga um greiðsluaðlögun liggi reiðubúið fyrir. Staðreyndin er hins vegar sú að Sjálfstfl. hefur ekki viljað fallast á það, hvorki í tíð síðustu ríkisstjórnar né í tíð núv. ríkisstjórnar.
    Herra forseti. Engum manni er jafnannt um það í Framsfl. að ná fram þessu góða máli og hv. þm. Guðna Ágústssyni sem hér hefur flutt hástemmdar ræður sem hefðu sæmt sér af hvaða stól erkibiskups í allri álfunni sem væri. Enginn hefur dregið upp lýsingar á ástandinu með jafngrafískum smáatriðum og hv. þm. En stundum kemur það jafnvel fyrir menn úr hans kjördæmi að skripla á skötu eins og Sæmundur forðum í Odda og það er ýmislegt sem hefur fallið úr minni hv. þm. Sennilega hefur hann tekið að reskjast um aldur fram. Hann segir, herra forseti, að Framsfl. sé fúlasta alvara í málinu. Þetta fer nú að minna á yfirlýsingar hv. þingmanna Sjálfstfl. á Vestfjörðum í sjávarútvegsmálum. Hv. þm. Framsfl. er fúlasta alvara í málinu. Ég dreg ekki í efa að hæstv. viðskrh. var fúlasta alvara þegar hann birti þessa auglýsingu í blaði um endurreisn heimilanna þar sem Finnur Ingólfsson, hæstv. ráðherra, brosir, eða mér sýnist þetta vera bros og segir: ,,Endurreisn heimilanna. Við viljum setja lög um greiðsluaðlögun sem gefa einstaklingum í alvarlegum greiðsluerfiðleikum möguleika á því að ná aftur stjórn á fjármálum sínum.`` Það hefur komið fram, herra forseti, að þetta var líka samþykkt á síðasta flokksþingi Framsfl. og hér er grein sem birtist í Tímanum ( GÁ: Farðu nú yfir þín afrek.) sem hv. þm. Guðni Ágústsson hefur ábyggilega lesið og þar segir hæstv. núv. viðskrh., með leyfi forseta: ,,Setja þarf lög um greiðsluaðlögun sem gefur einstaklingum í alvarlegum greiðsluerfiðleikum möguleika á að ná stjórn á fjármálum sínum.`` Þetta var það sem þeir sögðu fyrir kosningar. Og ef það væri svo, hv. þm. Guðni Ágústsson, að ykkur væri fúlasta alvara tel ég að það væri rökrétt að álykta að eftir kosningar þegar þið settuð saman samstarfsyfirlýsingu með Sjálfstfl. hefði þetta átt að koma fram, herra forseti. Orðið ,,greiðsluaðlögun`` finnst ekki þar og það sem er miklu, miklu verra: Það sem sýnir algert viljaleysi hæstv. félmrh. í málinu er það að þegar hæstv. félmrh. lýsti þeirri vinnu sem nú er í gangi í félmrn. einmitt á þessu sviði, gerði það í texta sem birtur var í afmælisriti Húsnæðisstofnunar, þar kemur orðið greiðsluaðlögun ekki fyrir. Málið er einfaldlega það, herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson getur talað um að Framsfl. sé fúlasta alvara og ég efa það ekki að hv. þm., sem er drengur góður og hefur stórt hjarta, er fúlasta alvara. En staðreyndin er bara sú að þeim kollegum hans, sem tókst að pota honum aftur fyrir sig og komast í ríkisstjórn, þar sem hann ætti auðvitað

sitja í dag, er ekki fúlasta alvara. Það sést best á því, hv. þm. Guðni Ágústsson, að orðið ,,greiðsluaðlögun`` kemur hvergi fyrir í þeim textum sem frá ríkisstjórninni hafa farið um húsnæðismál. Staðreyndin er einfaldlega sú, herra forseti, að það er alveg sama hvar drepið er niður fæti. Það virðist því miður sem þeir hv. þm. Framsfl., sem völdust í ríkisstjórn fyrir hönd flokksins, hafi hvorki þá þrákelkni, hugmyndaþrótt og kergju sem hv. þm. Guðni Ágústsson hefur. Ég er viss um að ef hann hefði góðu heilli orðið ráðherra væri þetta mál þegar fullbúið hér. Staðreyndin er sú að enginn vilji er til þess að gera eitt eða neitt.
    Hvað hefur hæstv. félmrh. gert í húsnæðismálum? Hann hefur skipað hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason í nefnd. Hv. þm. stóð sig afburða vel sem sveitarstjóri á Hvolsvelli og hefur gott vit á húsnæðismálum. Og hann er búinn að taka fleiri unga þingmenn Framsfl. og setja þá í nefndir. Það á sem sagt að véla um þessi mál í nefndum. En, herra forseti, er þörf á því? Ég man ekki betur en það hafi komið skýrt fram að það þarf ekki neinar nefndir. Hæstv. ráðherra Finnur Ingólfsson sagði í nákvæmlega sömu sporum og ég stend núna 27. des. 1994:
    ,,Herra forseti. Staðreyndin er nú sú að það er ekki þörf á neinni sérstakri úttekt á þeim erfiðleikum sem blasa við. Erfiðleikarnir eru alveg ljósir og ástæður þeirra eru líka alveg ljósar.`` Og herra forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði líka í grein sem birtist í Tímanum 29. mars, með leyfi forseta:
    ,,Það er mat okkar framsóknarmanna sem flytjum þetta frv.`` --- hann er að tala um það frv. sem hér er nú til umræðu --- ,,að nú sé tími kannana og skoðana á ástandinu liðinn. Aðstæður fólksins liggi fyrir og aðstæður greiðsluerfiðleikanna séu kunnar. Því sé nú runninn upp tími aðgerða. og því var þetta frv. um greiðsluaðlögun lagt upp á Alþingi.``
    Herra forseti. Það var mat gervalls þingflokks framsóknarmanna að staðreyndir málsins væru algerlega ljósar. Það þyrfti ekki fleiri kannanir, það þyrfti ekki fleiri nefndir, það væri einungis eftir eitt verk og það var að samþykkja það fína frv. um greiðsluaðlögun sem þeir lögðu fram.
    Herra forseti. Nú blasir við eftir kosningar að hæstv. félmrh. hefur farið yfir málið og hann sér að allt það sem hæstv. núv. viðskrh. sagði fyrir kosningar var bull og þvæla. Það þarf að kanna málið frekar. Herra forseti. Mætir menn eru þeir báðir, hæstv. ráðherrar. En ég verð að segja það að ég tel að þekking hæstv. viðskrh. á húsnæðismálum sé miklu betri en núv. hæstv. félmrh. Hann gerði þetta að sérgrein sinni fyrir síðustu kosningar og ég met það svo að skilgreining hans á stöðunni sé rétt. Það liggi allar staðreyndir málsins fyrir. Ekkert er eftir að gera nema samþykkja þetta frv. og þess vegna er það sem við, til þess að aðstoða okkar ágætu vini í Framsfl. við það að yfirstíga þröskuldinn sem situr þarna í stóli hæstv. fjmrh., leggjum fram þetta frv.
    Það er alveg ljóst og ég bæði sé það og heyri þegar hv. þm. Stefán Guðmundsson kinkar kolli við þessu, það er alveg ljóst að það er bullandi meiri hluti fyrir þessu máli. ( StG: Það er rétt.) Það er ekki einungis meiri hluti fyrir málinu. Langflestir þingmenn hafa sama skilning á málinu, að það sé nokkur hluti fjölskyldna í þessu þjóðfélagi sem á í verulegum vanda, að það sé hægt að bjarga þessu fólki úr núverandi vanda með því að samþykkja þessi lög. Þingflokkur Alþfl. er sammála þessu. Þingflokkur Þjóðvaka er sammála þessu. Þingflokkur Alþb. er sammála þessu. Þingflokkur Kvennalistans er sammála þessu. Og það sem skiptir mestu máli í þessari upptalningu: þingflokkur Framsfl. er sammála þessu. Því til staðfestingar liggja óteljandi greinar eftir núverandi ráðherra, óteljandi frammíköll hv. þm., sem þarna sitja spyrtir saman í stólum sínum, og hinn einlægi og drenglyndi vilji hv. þm. Guðna Ágústssonar, sem kom hér upp og gat undir lok sinnar ræðu loksins stunið því upp, að það væri hans skoðun að þröskuldurinn í málinu, ljónið á veginum, væri Sjálfstfl. Þannig var það í síðustu ríkisstjórn. Þannig var það í tíð fyrrv. hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur og þannig er það enn þá. Munurinn er hins vegar sá, herra forseti, að bæði hæstv. fyrrv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir og þeir félagsmálaráðherrar Alþfl. sem á eftir henni gengu, lögðu þó til atlögu við ljónið. ( GÁ: Nei, nei. Rangt) En það var hins vegar upplýst í umræðum á laugardaginn að hæstv. félmrh., þrátt fyrir öll loforð, þrátt fyrir það fossandi flæði kosningaloforða um húsnæðismál sem út úr munni hv. þm. Guðna Ágústssonar hafa streymt, frá hæstv. viðskrh. og fleirum, þá upplýsti hann það hér að hann hefði ekki einu sinni tekið málið upp við Sjálfstfl. Með öðrum orðum: Hæstv. félmrh. lyppast niður áður en til atlögunnar er komið og þekki ég nú þá ekki fyrir sama mann minn vaska vin að norðan.
    Þetta eru bara staðreyndirnar. Málið er alveg ljóst, vandinn er klár, aðferðirnar eru til reiðu, þingflokkur Framsfl. er til reiðu, en þá hæstv. ráðherra flokksins sem tókst að komast í ríkisstjórn skortir kjarkinn, þá skortir viljann og þá skortir hnén til þess að standa uppréttir gagnvart Sjálfstfl. í þessu máli.