Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:35:46 (970)


[14:35]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Ég vil leiðrétta hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég hef aldrei sagt að ég hafi ekki rætt húsnæðismál eða skuldir heimilanna við hæstv. fjmrh. Ég hef einmitt rætt bæði skuldir heimilanna og húsnæðismál við hæstv. fjmrh. Það sem ég sagði á laugardag var það að ég hefði ekki átt í neinni orrustu við hæstv. fjmrh. og við höfum komið okkur ágætlega saman um þessi mál hingað til og hvorugur orðið að láta undan öðrum. Þar af leiðandi vonast ég eftir því að við komum til með að eiga gott samkomulag um þau áfram.
    Ég vil þakka þessa umræðu. Ég vonast til þess að frv. sem lagt verður fram um efnahagsvandræði fólks í haust fái skjóta og góða meðferð á Alþingi. Ég mun fyrir mitt leyti reyna að undirbúa og láta undirbúa þau frumvörp þannig að um þau sé samstaða og síðast en ekki síst að þau komi því fólki sem á því þarf að halda að viðvarandi gagni. Þó að ég biðji þingheim um samstarf þá felst ekki í því að ég sé að biðja hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að taka einhverja forustu í málinu.