Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:37:34 (972)

[14:37]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur greinilega komið fram við þessa umræðu að það er mikill meiri hluti fyrir þessu máli á þinginu og það hefur ítrekað komið fram hjá hv. framsóknarmönnum, sem kinka kolli þegar ég segi þetta. En það hefur einnig komið fram í þessari umræðu að það sé Sjálfstfl. sem er fyrirstaða í þessu og ég trúi því mætavel. Þegar ég lagði fram mína skýrslu í ríkisstjórn, rétt áður en ég hvarf úr ríkisstjórninni, fann ég fyrir þessari fyrirstöðu. Þannig að ég trúi því vel að þetta sé rétt. Þess vegna vil ég skora á hæstv. fjmrh. að koma hér í ræðustól og lýsa afstöðu sinni til þessa frv. Mér finnst hann ekki geta gert þingheimi það að sitja bara og hlusta á þessa umræðu og liggja undir því að Sjálfstfl. sé á móti þessu máli, án þess að hann komi í ræðustól og svari því: Hver er afstaða sjálfstæðismanna til þessa frv. Hver er afstaðan? Ætla þeir að leggjast á móti þessu máli eða vilja þeir greiða götu þess? Eru þeir tilbúnir til þess að leggja í þann tíma sem þarf á þinginu til þess að við getum gert þetta mál að lögum? Og má þá vænta þess, ef þeir telja að það þurfi tíma til að skoða þetta, að þeir muni styðja málið þegar það kemur fyrir á haustþingi?
    Meginefni þessa frv. er alveg ljóst. Það þarf ekkert að skoða þetta mál og hæstv. fjmrh. er vel kunnugt um efni málsins þannig að hann gæti sagt það af eða á hér í þessum ræðustól hvort hann styðji frv. eða ekki. Mér finnst að það sé ekki hægt að gera fólki það að vera að draga það á því hvort frv. verði flutt í haust eða ekki og það sé verið að draga fólk á afstöðu sjálfstæðismanna, sem greinilega gegna hér lykilhlutverki í þessu máli. Ég skora á hæstv. fjmrh. að koma hér í ræðustól og gera grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna í þessu efni.