Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:39:34 (973)


[14:39]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það er öllum hugsandi mönnum ljóst að þessi umræða sem fer fram hér í dag er sýndarumræða. Hún er sett hér á svið á síðasta degi þingsins og er ekkert við því að segja.
    Vegna efnis málsins vil ég taka það fram að þetta mál sem felst í frv. sem hér er til umræðu er til skoðunar á milli stjórnarflokkanna, eins og skýrt hefur komið fram af hálfu hæstv. félmrh., og málið mun að sjálfsögðu koma til þingsins þegar þeirri skoðun lýkur.
    Ég vil einnig að það komi skýrt fram að það er ekki eins og ekkert hafi verið gert í þessum málum. Það veit hv. 13. þm. Reykv., og reyndar allir hv. þm., að bankar og lánastofnanir eru á hverjum degi að fást við þessi mál. Og það er ekkert gagn að lausnum sem leiða til enn meiri erfiðleika fyrir fólk síðar meir og því held ég að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ætti að hafa kynnst af sinni löngu reynslu af húsnæðismálum og greiðsluerfiðleikum fólks. Það sem skiptir máli er það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og það er að niðurstaðan verði á þann veg að það komi þeim til góða sem mest þurfa á þessari aðstoð að halda. Hvaða form það er sem við veljum skiptir ekki öllu máli og Sjálfstfl. hefur aldrei lagst af neinum þunga gegn einu eða öðru. Það sem hefur fyrst og fremst vakað fyrir honum er að niðurstaðan sé með þeim hætti að hún sé gagnleg fyrir þá sem þurfa á aðstoðinni að halda, en það sé ekki verið að eltast við einhverjar patentlausnir sem eru til hér eða þar eða annars staðar í heiminum. Þeir sem þekkja til bæði í Noregi og Svíþjóð, hvað þessi mál snertir, vita að það er ekki himnaríki þótt samþykkt hafi verið lög af þessu tagi þar. Því ber að líta á aðra þætti málsins en þá þýðingu sem hér liggur fyrir í lagafrv. því sem Alþb. hefur tekið upp eftir nokkrum framsóknarmönnum sem flutti það á síðasta kjörtímabili.
    Ég vona að það sé skýrt, og ég vil bara taka undir það, að ríkisstjórnin er sammála um að þetta mál fái þá lausn sem eðlileg er eftir að mál hafa verið skoðuð og ég veit að hv. stjórnarandstæðingar skilja að það þarf kannski meira en nokkra daga og nokkrar vikur til þess að undirbúa slíka löggjöf og þeir sem ættu að skilja það helst eru þeir sem fengust við húsnæðismálin árum saman.