Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:42:44 (974)


[14:42]
     Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að ræða það undir þessum dagskrárlið hvernig hæstv. fjmrh. var að hæðast að tillöguflutningi Framsfl. í þessum efnum og kallaði þetta frv. sem Framsfl. flutti og við höfum endurflutt hér, einhverjar patentlausnir sem menn væru að eltast við úti í heimi. Það er dálítið langt síðan ég hef heyrt forustumann úr samstarfsflokki í ríkisstjórn hæðast svona að samstarfsflokknum, eins og hæstv. fjmrh. gerði hér varðandi Framsfl.
    Hins vegar kom það fram hjá hæstv. viðskrh. að hann virðist vera tilbúinn til að afgreiða þetta frv. Það var ekki hægt að skilja ræðu hæstv. viðskrh. á annan veg en þann að það lægju hér fyrir tillögur og þær væru í þskj. og þær bæri að afgreiða. Hann var síðan með frýjunarorð í okkar garð, stjórnarandstæðinga, sérstaklega okkar alþýðubandalagsmanna og mín, að við værum ekki tilbúnir til þess heldur vildum bara stunda hérna einhvern áróður. Ég fer þess vegna fram á það, virðulegi forseti, að þetta mál fái áframhaldandi gang í þinginu, að félmn. fjalli um málið. Við erum að afgreiða hér mál sem hafa komið til þingsins með litlum fyrirvara en hafa lengi verið í undirbúningi. (Gripið fram í.) Þetta mál hefur verið lengi í undirbúningi, hv. þm. Stefán Guðmundsson, verið lengi í undirbúningi. ( StG: Farðu ekki að skemma gott mál.) Skemma gott mál?
    ( Forseti (ÓE) : Ekki samtal.)
    Ef það að skemma gott mál að biðja um það að frv. sem hv. þm. var meðflm. að sé lögfest hérna á Alþingi þá er ég hættur að skilja til hvers hv. þm. er hér á þinginu. ( StG: Þú veist hvað klukkan er.) Hvað klukkan er? Er það orðið vandamál Framsfl. hvað klukkan er? Ég hef bara aldrei heyrt önnur eins rök.
    Virðulegi forseti. Ég fer fram á það að þessu máli verði vísað til félmn. og hún komi saman síðar í dag til að fjalla um frv.