Tekjuskattur og eignarskattur

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:47:23 (976)

[14:47]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. sem kemur frá efh.- og viðskn., sem nefndin stendur samhljóða að. Þetta er tæknilegt frv. Í því eru leiðrétt mistök sem urðu við fyrri lagasetningu. Á einum stað hafði slæðst inn komma. Annað atriði sem hér er leiðrétt er það sem varðar húsaleigubætur, að rétthafar vaxtabóta geti ekki jafnframt verið rétthafar húsaleigubóta. Það var gerð breyting á þessum lögum 1995, en þar láðist að taka tillit til þess að framangreindar breytingar á lögum nr. 147/1994 koma ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu skatts á næsta ári. Þetta tekur á vanda þeirra búseturétthafa sem eru í almenna kaupleigukerfinu.
    Þetta ákvæði, eins og það var í lögunum sem láðist að breyta á sínum tíma, kom í veg fyrir, að óbreyttu, að þessi síðasta breyting kæmist til framkvæmda. Því er hér lagt til að þessu verði breytt í þá veru sem ætlunin var.