Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:16:56 (979)


[15:16]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskrh. fyrir svörin. Ég tel að þau séu ágæt svo langt sem þau ná. Það hefði verið betra ef heilbrrn. hefði verið búið að taka þessar ákvarðanir og undirbúa þessi frv. um áfengis- og vímuefnavarnir áður en þessi mál voru lögð hér fyrir þingið. Því miður er ekki þannig að málum staðið, eins og kunnugt er, og það höfum við verið að gagnrýna.
    Ég vil einnig láta það koma fram í tilefni af orðum orðum hæstv. ráðherra, að ég er sannfærður um að við í okkar þingflokki erum tilbúin til þess að hjálpa til við mótun þeirrar stefnu í áfengis- og vímuefnamálum sem hæstv. ráðherra gerði hér lauslega grein fyrir. Það var undir okkar forustu þegar við fórum með heilbrrn. að stefnumótun var unnin í áfengisvarnamálum almennt. Þar held ég að sé í raun og veru talsverðan lærdóm að hafa. Það sem ég legg aðallega áherslu á í því sambandi er að tillögurnar um stefnumótun í þessum málum verði raunsæjar og taki mið af þeim veruleika sem við búum við í þessum málum. En hitt er þó slæmt og kannski aðalatriðið, að mér heyrist að þrátt fyrir að heilbrrn. viðurkenni að það vanti þessa stefnu þá er hæstv. ráðherra samt sem áður þeirrar skoðunar --- eða hvað? --- að það verði að klára málið. Og ég spyr hann: Af hverju?