Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:18:25 (980)


[15:18]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir það að hann sé tilbúinn til að aðstoða stjórnarflokkana við þessa stefnumótun. Ég held að það sé mikilvægt að geta átt gott samstarf við allt þingið um það.
    Eins og fram hefur komi ætlar hæstv. heilbr.- og trmrh. að leggja slík frv. fram á haustþingi. Ég get alveg tekið undir það að það hefði verið skynsamlegra að hafa þá stefnumótun tilbúna samhliða framlagningu þessa frv. hér á þinginu þegar það var lagt fram. Það hefði vafalaust komið í veg fyrir eða a.m.k. dregið úr þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað.
    Það er rétt hjá hv. þm. að það er afstaða ríkisstjórnarflokkanna að ganga frá þessu frv. sem lögum frá Alþingi á þessu vorþingi. Það hafa nú verið tíunduð öll þau rök fyrir því, hv. þm., hvaða ástæður liggja þar að baki. Ég ætla því ekki í þessu stutta andsvari að fara frekar í þá efnislegu umfjöllun, hún hefur verið þónokkur og færð hafa verið rök fyrir þeim ástæðum sem þar liggja að baki. En ég tek undir það með hv. þm. að það hefði verið skynsamlegt að láta þessa stefnumótun í vímuefnavörnum og áfengisvörnunum vera tilbúna strax í upphafi þegar frv. kom hér fram og það er auðvitað það sem ég vonast til að menn láti sér að kenningu verða í þessum efnum.