Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:20:52 (982)

[15:20]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Þá er nú enn eitt forgangsmál ríkisstjórnarinnar, einn eitt brennivínsmálið, komið á dagskrá. Það er ekki látið hér laust né fast við að koma þessum málum áfram, slík forgangsmál eru hér á ferðinni. Það er auðvitað mjög merkilegt þetta hlutskipti Framsfl. í hverju tilvikinu á fætur öðru sem hér eru til umræðu, að dæma yfir sig þau örlög að flytja eða standa að frv. sem margir ágætir hv. þm. Framsfl. töluðu gegn af miklum þrótti á síðasta kjörtímabili. Ég held að það verði nú leitun í stjórnmálasögunni að dæmi um það að menn hafi gleypt hlutina jafnhráa ofan í sig eins og framsóknarmenn eru að gera í þessum efnum og jafnmetnaðarlítil framganga einnar nýrrar ríkisstjórnar eða stjórnarflokks er ábyggilega fátíð.
    Mér verður stundum í þessu sambandi hugsað til fyrrv. hv. þm. Jóns Helgasonar frá Seglbúðum. Hann hefur nú verið leystur af hólmi af svokölluðum nýframsóknarmönnum, hv. þm., nýliðum í hópi Framsfl. En það hefur lítið farið fyrir þeirra málafylgju í þessu máli, a.m.k. borið saman við forverann. Hann stóð ágætlega vaktina í þessum efnum fyrir sinn flokk á undanförnum kjörtímabilum og m.a. í nokkuð snörpum umræðum um þessi mál hér á síðasta kjörtímabili.
    Það er kannski skýrast, herra forseti, í þessu frv., frv. til laga um breytingu á áfengislögunum sjálfum, af þessum þremur brennivínsfrv., sem við köllum svo, sú kerfisbreyting og grundvallarbreyting sem hér er á ferðinni. Maður skyldi því ætla að hér væri í greinargerð einhver ítarlegur rökstuðningur fyrir því að það stæðu rök til að gera þessar breytingar, þar sem um er að ræða þann hluta málsins sem kemur inn í áfengislöggjöfina sjálfa, svo ekki sé nú minnst á að til að mynda fylgdi þessu frv. greinargerð eða skýrsla frá heilbrrn. þar sem farið væri yfir þetta af hálfu þess ráðuneytis, fagráðuneytis, hvaða afstöðu þeir hefðu til þessara breytinga og hvernig þeir vildu standa að þeim. Það vill svo til að ég hef verið með í höndunum undanfarna daga sambærilega pappíra frá Noregi. Og hver er aðalmálsaðilinn að þessu í norska þinginu? Jú, það er auðvitað félags- og heilbrigðismálaráðuneytið þar. Það leggur faglega mat á stöðuna og leggur línur gagnvart því hvernig Norðmenn eigi að reyna að bregðast við þessum breytingum. En er slíku að heilsa hér á Íslandi? Höfum við í höndunum tillögur eða greinargerð eða stefnumótun heilbrrn. í sambandi við þessi mál? Nei, það er ekki stafkrókur til á blaði frá því ráðuneyti um þetta. Og það sem meira er, að hæstv. heilbrrh. hefur forðað sér úr landi og hefur ekki sést hér við umræðuna, leystur af hólmi af hæstv. iðnrh., sem er líka kvikur undir umræðunni. Þetta er mjög ámælisvert, herra forseti, mjög ámælisvert. Það er því langt frá því að það sé þannig staðið að þessari breytingu eða að hún sé þannig borin fram hér að það sé hægt að taka mark á því.
    Menn geta verið sammála eða ósammála eftir atvikum um efni þessa máls, það er eitt og deilt um það, en hinu verður ekki á móti mælt að þegar verið er að gera breytingar af þessu tagi þá ber að vanda það hvernig að þeim er staðið. Og mig langar, herra forseti, í því sambandi aðeins að líta niður í rökstuðninginn í greinargerðinni. Það er sagt hér í greinargerð að með frv. þessu verði einkaréttur ríkisins á innflutningi áfengis afnuminn. Síðan kemur, með leyfi forseta:
    ,,Þau sjónarmið sem einkum hafa verið færð fyrir einkarétti ríkisins til innflutnings og heildsölu á áfengi eru að með þessum hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi vínandagjalds af vörum þessum auk þess sem líklegar þótti að fyrirkomulagið tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörum þessum til landsins. Einnig hefur verið á það bent að með einkaréttinum væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á áfengi þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með löglegum hætti.``
    Síðan er þetta ekki rökstutt meir en sagt í framhaldinu:
    ,,Telja verður að framangreind sjónarmið eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu þessara vara.`` --- Það er í raun og veru aðalrökstuðningurinn. Jú, það er sagt að það megi afla ríkissjóði sambærilegra tekna með vínandagjaldi eða með sem sagt gjaldi á innflutning í tolli. Og það er fullyrt, án þess að það sé rökstutt frekar, að það sé ekkert erfiðara að hafa eftirlit með ólögmætum innflutningi eða sölu þessara vara. Svo kemur mjög merkileg setning og það er kannski aðallykillinn í málinu. Í þriðja lagi er sagt:
    ,,Jafnframt þessu má benda á að óþarft er fyrir ríkið að vera í rekstri sem einkaaðilar eru færir um að leysa af hendi . . .  `` --- Ætli þetta sé nú ekki lykilsetningin? Og búið. Þetta er rökstuðningurinn í málinu. Í raun og veru telur hæstv. ríkisstjórn að það sé nóg að segja: Að telja verði að framangreind sjónarmið eigi ekki við og það sé óþarfi fyrir ríkissjóð að vera yfir höfuð í rekstri sem einkaaðilar séu færir um að leysa af hendi. Nú kinnkar ákaft kolli ónefndur þingmaður og aðdáandi frjálshyggjunnar hér út í salnum. ( VE: Þetta er mjög hnitmiðað.) Þarna hitta menn naglann á höfuðið. Ríkið á bara ekki að gera neitt sem einstaklingarnir geta gert. Dreifing vímuefna þar með talin. Og þá er komið að því sem við höfum áður rætt og ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vildi nú tolla í salnum augnablik. Það eru þessi sjónarmið að kaup og sala á áfengi sé bara eins og meðhöndlun á hverjum öðrum varningi og það eigi ekki að gera neinn greinarmun á því eða verslun með strigaskó, eins og ég hef áður tekið sem dæmi. Þetta er sjónarmiðið í

raun og það kemur hér fram í greinargerðinni og það er ekki haft fyrir því að reyna að bera við frekari rökstuðningi í málinu. Auðvitað er þetta með miklum ólíkindum.
    Í fyrsta lagi er það náttúrlega þannig að það vantar heilmikið inn í röksemdirnar fyrir því að ríkiseinkasala sé skynsamlegt fyrirkomulag. Það vantar að mínu mati aðalröksemdina, þá sem mestu máli skiptir, en hún er sú að með því að þetta sé á hendi ríkisins er tryggt að einkaaðilar séu ekki að stunda sölustarfsemi á þessu sviði og reyna að auka söluna og auka umsvifin í eigin hagnaðarskyni. Það er auðvitað sá hvati til aukinnar sölu og neyslu sem menn eru að reyna að forðast með því að láta ríkið annast þessi viðskipti sem þau eru lögleidd á annað borð. Þetta hefur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson alls ekki skilið eða vill ekki skilja. Kannski er það einmitt hin hliðin á málinu sem honum er hjartfólgin, hann vill að einhverjir tugir eða hundruð kaupmanna geti grætt á því að selja brennivín í anda þeirrar hugmyndafræði að það eigi ekki að gera greinarmun á áfengi og strigaskóm, þetta sé allt saman eins og hver önnur vara og ríkið eigi aldrei að koma nálægt neinu sem einstaklingar geti leyst af hendi. Og ef þetta eru viðhorfin, ef það er svo forstokkuð og botnlaus frjálshyggja og gróðahyggja sem að baki liggur og viðhorf af þessu tagi, til meðferðar vímuefna í þjóðfélaginu þá er auðvitað slíkt gap á milli okkar hv. þm. í sjónarmiðum að ég hef litla von um að það nálgist mikið.
    Mér finnst þetta lélegt, herra forseti, og til skammar hvernig þetta mál er hér fram borið og þá er ég sérstaklega að tala um þetta frv. um breytingu á áfengislöggjöfinni. Þessi rökstuðningur er ekki boðlegur. Ég öfunda ekki heilbrrh., hvaða heilbrrh. sem er, að vera í ríkisstjórn sem stendur svona að málum, að breytingu á jafnviðkvæmri löggjöf og áfengislöggjöfin er og vona að hæstv. ráðherra hafi valið þann kost að vera fjarverandi.
    Frammistaða heilbrrn. er auðvitað afar dapurleg því að fram hefur komið að það hefur ekki tekist að fá skriflega greinargerð frá ráðuneytinu. Það hefur ekki tekist. Því var lofað hér í umræðum eða höfð um það stór orð og þegar gengið var eftir því í heilbr.- og trn. eða hvort það var í allshn., sem hafa báðar haft mál af þessu tagi til umfjöllunar, þá fékkst ekkert slíkt erindi frá heilbrrn. Þetta er öll frammistaðan. Jú, jú, svo geta menn komið hér upp og sagt að stjórnin ætli að taka á þessum málum og sinna þessu og þetta verði sett í nefnd. Það er mjög í tísku núna að setja vandamálin í nefnd samanber húsnæðisvandann. Svar ríkisstjórnarinnar gagnvart neyðarástandi í húsnæðismálum er að það verði sett í nefnd. Málin sem átti að leysa öll á einu bretti fyrir kosningar samanber loforð annars stjórnarflokksins ef ekki þeirra beggja.
    Það er svo, herra forseti, að mál þessi eru illa undirbúin, þau eru ekki í boðlegum búningi þegar þau eru til umfjöllunar á þinginu en engu að síður er það ákvörðun meiri hlutans að keyra þau í gegn. Það er upplýst að þingið verði látið sitja við nætur og daga þangað til þetta verði komið í gegn. Þvílík forgangsmál eru þetta. Það er ekki verið að ræða um það að lengja þinghaldið hugsanlega um viku eða tíu daga til þess að taka t.d. í gegn frv. til laga um greiðslumiðlun vegna greiðsluerfiðleika fólks í húsnæðismálum. Nei, það þarf ekki að framlengja fundi Alþingis til þess, það má bíða til haustsins þótt nokkur þúsund fjölskyldur í landinu séu með húsnæðislán sín í uppnámi. En fundum verður haldið áfram fram á mitt sumar samkvæmt upplýsingum frá meiri hlutanum ef á þarf að halda til að berja þessi brennivínsmál í gegn. Auðvitað er það þannig að þá megum við stjórnarandstæðingar okkar ekki gegn slíku enda þótt við viljum stöðva þessi mál og séum þeim andvígir.
    Það er líka nokkuð merkilegt, herra forseti, að upplifa að sameiginleg og nánast algjörlega einróma afstaða allra helstu fagaðila á þessu sviði, sem hefur eðlilega verið leitað til, nema heilbrrn. sem hefur ekki fengist til að tjá sig í málinu, er að engu höfð. Hún virðist skipta þessa háu herra engu máli, hæstv. fjmrh. og hv. þm. Vilhjálm Egilsson, og aðra slíka. Það kemur ekki við þá frekar en vatn á gæs þó landlæknisembættið, áfengisvarnaráð og öll helstu almannasamtök sem koma nálægt forvörnum eða meðferð ungmenna og vímuefnasjúklinga leggist gegn þessu. Það hefur engin áhrif. Þetta skal keyrt í gegn engu að síður. Það er auðvitað umhugsunarefni þegar svo er komið.
    Hvað gefur þessum háu herrum, herra forseti, svo ég leyfi mér nú að segja svo, þá sannfæringu að þeir hafi rétt fyrir sér í þessu máli en allir aðrir rangt? Allir helstu sérfræðingar í heilbrigðisstéttum og uppeldisstéttum og aðrir slíkir aðilar. Stjórnskipað ráð til ráðgjafar stjórnvöldum hefur rangt fyrir sér. Landlæknir hefur ekkert vit á þessu og SÁÁ, Vímulaus æska, Heimili og skóli, samtökin Stöðvum unglingadrykkju hafa heldur ekkert vit á þessu. Nei, það eru hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hafa einir hina réttu lögmætu skoðun og í krafti sannfæringar sinnar keyra þeir yfir alla andstöðu bæði innan þings og utan. Þeir gera þetta að þvílíku forgnagsmáli að þinghaldinu verði ekki slitið undir neinum kringumstæðum fyrr en þetta hafi náð fram að ganga. Þvílíkt úrslitamál er þetta að því verður við fátt annað jafnað. Auðvitað er alveg ljóst, herra forseti, að þessi miklu ágreiningsmál sem hér hafa valdið hörðum deilum hafa torveldað samkomulag um þinghaldið, það er alveg ljóst, og ekkert nema eðlilegt um það að segja. En öllum tilraunum til að reyna að ná einhverri sameiginlegri lendingu í þessum málum og fá meiri hlutann til að ganga til samkomulags um meðferð þessara mála hefur verið hafnað. Af þvílíku offorsi á að keyra þetta fram. Þetta er dapurlegt, herra forseti. Þetta er ömurlegt forgangsmál fyrir eina ríkisstjórn hvaða ríkisstjórn sem er þó það hæfi kannski þeirri sem nú situr betur en flestum öðrum.