Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:35:17 (983)


[15:35]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég tel ekkert athugavert við að einkaaðilar komi að viðskiptum með áfengi enda er varan lögleg með þeim takmörkunum sem um hana gilda. Ég vek t.d. athygli hv. þm. á því að býsna margir vínveitingastaðir hér í landinu sem starfa nú m.a. á þeim grundvelli að selja áfengi í smásölu og á öllum þessum stöðum háttar þannig til að þeir sem reka þessa staði eða vinna þar hafa töluvert mikinn hagnað af því að selja áfengi og koma því út. Þannig geta sumir staðir hagnast af því að vera með ákveðnar tegundir umfram aðrar, sumir staðir selja dýrt aðrir selja ódýrar. Sumir staðir auglýsa meira að segja að þeir hafi ódýrt áfengi á boðstólum, sérstaklega bjór. Og ég spyr: Ætlar hv. þm. að koma hér og tala fyrir því að þjóðnýta alla þessa staði? Alla vínveitingastaði í landinu, öll veitingahús? Má ekki reka hamborgarastað við þjóðveginn án þess að það sé ríkisrekstur? Ég held að það yrði ansi fábreytt mannlíf á Íslandi ef á nú að fara að bjóða mönnum upp á ,,Ríkiskaffi Romance`` eða slíka staði. Ég er hræddur um að það yrði ansi fábreytt mannlífið þá. Það yrði kannski þannig draumur hv. þm. að á þeim stað yrði bara boðið upp á ríkisbjór og svona tvö til þrjú ríkisvín sem menn mættu af allri náð og miskunn bjóða upp á. Ég tel ekkert athugavert við það, ég tel það algjörlega sjálfsagt að einkaaðilar geti stundað þessi viðskipti með þeim takmörkunum sem um þau gilda. ( SvG: Er það þessi framtíðarsýn sem þú ert að boða?)