Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:39:53 (985)


[15:39]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vísa því algerlega á bug að ég hafi verið hér verið að afflytja málflutning hv. þm. Hann sagði það í ræðu sinni hér áðan að hann teldi það ekki æskilegt að einkaaðilar högnuðust af því að selja áfengi. Nú er það svo að í öllum vínveitingastöðum landsins er fjöldi einstaklinga sem hagnast af því að selja áfengi og leggur ótæpilega á. Þess vegna kemur ekkert á óvart að spyrja hv. þm. að því hvort hann vilji þjóðnýta alla þá veitingastaði, sem eru nú orðnir 350, og vill hv. þm. kannski taka upp á því að takmarka þá eða setja einhverjar sérstakar reglur um takmörkun á þeim?
    Ég held að heildsala á áfengi sé kannski sá þáttur sem sé hvað best til þess fallin að koma yfir á einkaaðila vegna þess að þar er ekki verið að ota vörunni beinlínis að hinum endanlega neytenda. Ég vek athygli hv. þm. á því að það er fjöldi heildsala og umboðsaðila á áfengi í dag og framleiðenda sem eru á fleygiferð að selja þessa vöru. Eða hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kannski bara ekkert tekið eftir því? Veit hann kannski ekkert um hvernig þau viðskipti ganga fyrir sig í dag? Ég tel að það megi alveg skoða það í framhaldi af samþykkt frv. að rýmka um smásöluþáttinn að einhverju leyti. Ég tel t.d. að fjöldinn allur af sveitarfélögum sé búinn að sækja um leyfi til að opna áfengisverslun eða fá áfengisverslun opnaða. Ég sé ekki af hverju á að neita þeim sveitarfélögum um slíka þjónustu. Ég sé það ekki. Ég sé ekki að það sé neitt réttlæti í því fyrir íbúa einhverra ákveðinna sveitarfélaga að alast upp við það sem ég ólst upp við og hv. þm. væntanlega líka að þurfa að panta allt áfengi í gegnum pósthús.