Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:42:15 (986)


[15:42]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég endurtek að það er alger útúrsnúningur, hreinn útúrsnúningur á mínu máli, að fara að tala um einhverja allsherjarþjóðnýtingu á allri veitingasölu í landinu eins og hv. þm. gerði. Ég hef aldrei minnst á slíkt. Þetta eru hugarórar, skáldskapur og útúrsnúningur og þvættingur og ég vísa því til föðurhúsanna.
    Hitt er allt annað mál að þó menn ræði og jafnvel greini á um það hvort við séum að taka skref í hina áttina og hvort þau séu skynsamleg. Hve hratt við eigum að taka þau eða hvernig. Það er bara allt annar hlutur. Enginn er að tala um að snúa klukkunni til baka í þessum efnum. Það fólst ekkert slíkt í mínu máli. Með því er ég ekki endilega að segja að ég telji allt heppilegt sem gerst hefur í þessum málum á undanförnum árum. Það er reyndar þannig, hv. þm. að takmörk eru á um áfengisveitingar í landinu. Það er leyfisbundin starfsemi og menn þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Ég leyfi mér að segja við hv. þm. án þess að það sé nú til nokkur einhlítur mælikvarði á það að ég held að ég þekki þetta alveg jafn vel og hv. þm. út af fyrir sig. Það getur vel verið að hv. þm. hafi meiri innsýn í viðskiptahliðina og gróðavonina í þessum rekstri en sá sem hér stendur gerir en ég þykist í gegnum tíðina hafa aflað mér sæmilegrar þekkingar á grundvallarlöggjöfinni á þessu sviði og hvernig það gengur fyrir sig.
    Ég þakka hv. þm. í sjálfu sér fyrir hreinskilnina. Það má þó hv. þm. eiga að hann segir oftast hug sinn. Það kom auðvitað fram að hv. þm. vill gjarnan að það verði síðan haldið áfram, rýmkað um smásöluþáttinn og hvar ætla menn þá að enda? Það er það sem ég spyr gjarnan að. Áður en menn leggja upp í leiðangur er gott að átta sig á því hvar menn ætla að enda. Ætla menn að enda með áfengið í öllum almennum búðum og ætla menn að enda með því að hver sem er geti rekið smásölu á áfengi? Þetta eru bara spurningar sem eðlilegt er að spurt sé.
    Herra forseti. Við lok þessarar umræðu, það kemur nú annað mál á dagskrá næst um gjald á áfengi, verður það auðvitað að hafa sinn gang ef meiri hlutinn er ákveðinn í því og þar er ekki lengur neina menn að finna sem vilja staldra við þá hefur það auðvitað sinn gang. Maður hefði bundið vonir við það að ýmsir ónefndir menn í stjórnarliðinu mundu a.m.k. hugsa sinn gang áður en þeir léðu þessum málum brautargengi. Ef svo er ekki verður ekki við okkur í minni hlutanum að sakast. Við höfum reynt að gera það sem í okkar valdi stendur til að afstýra því að hér séu menn að fara út í ógöngur.