Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:45:07 (987)

[15:45]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 67, sem er flutt af meiri hluta efh.- og viðskn. Hún er í tveimur liðum. Í fyrri liðnum er lögð til smáhækkun á áfengisgjaldi sem er hækkun úr 58,10 upp í 58,70 kr. á hvern sentilítra af vínanda umfram 2,25 sentilítra í hverjum lítra áfengis.
    Í annan stað er lagt til að við frv. bætist ný grein sem orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Af innheimtu gjaldi skv. 3. gr. skal 1% renna í Forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins skal vera að stuðla að áfengisvörnum. Styrki skal veita úr sjóðnum til forvarnastarfa á verkefnagrundvelli. Heilbrigðisráðherra skipar fjögurra manna sjóðstjórn. Fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra tilnefna einn stjórnarmann hver en þann fjórða skipar heilbrigðisráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Heilbrigðisráðherra setur nánari reglur um sjóðinn með reglugerð.``
    Meiningin er sem sagt sú að taka aðeins meira gjald af áfengi og fá þá meira fé til forvarna gegn áfengisdrykkju. Það má segja sem svo að á meðan ég tel að það sé eðlilegt og æskilegt að sem eðlilegastir viðskiptahættir ríki á þessu sviði er að sjálfsögðu ástæða til þess að hvetja fólk til þess að umgangast þennan varning af varúð og hófsemi og því er ekkert óeðlilegt að verið sé að veita aukið fé til forvarna. Ég legg líka áherslu á að fé úr sjóðum skal veita á verkefnagrundvelli þannig að það er verið að veita fé úr sjóðnum til ákveðinna tiltekinna verkefna í áfengisvörnum sem sótt er um og geta þau verið breytileg frá tíma til tíma. Það geta líka verið ýmsir aðilar sem fá úthlutun úr þeim sjóði í hvert skipti sem úthlutað er úr honum.