Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:48:07 (988)


[15:48]
     Ögmundur Jónasson :

    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska eftir því við hæstv. forseta að hann geri ráðstafanir til að hæstv. fjmrh. og hæstv. starfandi heilbrrh. verði í þingsalnum áður en ég hef ræðu mína.
    ( Forseti (ÓE) : Þær ráðstafanir hafa þegar verið gerðar. Þeir koma vonandi eftir augnablik. Þeir eru báðir í húsinu.)
    Mig langar til að byrja á því að víkja að því sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði að umræðuefni hér áðan. Honum varð nokkuð tíðrætt um forvarnir og reyndar hafa ýmsir haft forvarnir á orði í málflutningi sínum um þetta mál, ekki síst hv. þm. Ágúst Einarsson, sem kvaðst myndu sitja hjá við atkvæðagreiðslu þessara frv. Áður hafði hann sent frá sér minnihlutaálit frá efh.- og viðskn. þar sem hann fann þessum frv. og þessum lagabreygingum margt til foráttu, taldi þessar lagabreytingar af hinu illa. Síðan höfðu komið fram tillögur um að efla forvarnir og þess vegna myndi hann sitja hjá eða ekki leggjast gegn þessari lagabreytingu. Þetta minnir mig ofurlítið á mann sem leggur blessun sína yfir að kveikt sé í húsinu, leggur blessun sína yfir brennuvarginn vegna þess að það sé búið að kaupa svo fín slökkvitæki í húsið. Mér finnst þetta mjög undarlegur málflutningur. ( Gripið fram í: Hver talar svona?) Ég var að vitna í það sem hv. þm. Villhjálmur Egilsson hefði sagt um forvarnir og hv. þm. Ágúst Einarsson og reyndar hv. starfandi heilbrrh. einnig, Finnur Ingólfsson, sem gerði mikið úr forvörnum en hafði fyrir nokkrum vikum lagst mjög eindregið gegn þeim lagabreytingum sem eru til umræðu en að því mun ég víkja lítillega síðar.
    Menn hafa talað nokkuð mikið í þessum máli og einstaka maður hefur spurt hvort það gæti verið að menn væru komnir út í málþóf. Svarið við þeirri spurningu er afdráttarlaust neitandi. Hins vegar þykir mér þetta gefa tilefni til ákveðinna vangaveltna um störf þingsins og ábyrgð stjórnmálamanna. Hér fara fram umræður um mjög veigamiklar breytingar sem taka til grundvallarþátta í þjóðlífi okkar. Taka til heilbrigðismála, taka til þeirrar áfengisstefnu sem við rekum í landinu, taka til fjármuna ríkisins, við erum að tala um starfsemi þar sem 12--14 milljörðum kr. er velt á ári hverju. Við umræður um þessar lagabreytingar eða tillögur að lagabreytingum eru menn að reyna að fá fram röksemdir og vitræna umræðu. Mér finnst áhyggjuefni að fylgjast með því hvernig stjórnmálamenn umpólast á hv. Alþingi og ekki bara í umræðu um þetta mál heldur einnig um önnur mál. Það á við um þá sem ganga út úr ríkisstjórn og það á einnig við um hina sem ganga inn í ríkisstjórn. Það er engu líkara en menn skipti um skoðanir um föt og um föt og skoðanir. Mér finnst þessi háttur vera til þess að grafa undan lýðræðinu. Að veikja trú manna á stjórnmálamenn og lýðræðisleg vinnubrögð.
    Fyrr í dag voru menn að vitna í fyrri loforð í húsnæðismálum, loforð andstæðinga sinna í stjórnmálum og hæstv. viðskrh., Finnur Ingólfsson, fór enn lengra aftur í tímann og var búinn að grafa upp gamlar loforðamöppur og velti vöngum yfir efndunum. Mér finnst þetta allt saman skipta máli. Mér finnst þetta allt saman vissulega skipta máli þó að maður skoði svolítið þetta samhengi hlutanna. Mér finnst það líka skipta máli, hæstv. viðskrh., þegar formaður þingflokks Framsfl., þáv. hv. þm. Finnur Ingólfsson, kom á fund starfsmanna ÁTVR í húsakynnum BSRB nokkrum vikum fyrir kosningar og ræddi þær breytingar sem nú eru til umræðu. Ég hef í höndum ályktun frá starfsmannafélagi ÁTVR sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Í tilefni þess að í umræðum á Alþingi þann 10. júní vísaði Finnur Ingólfsson í fund sem hann átti með stjórn Starfsmannafélags ÁTVR og formanni BSRB. Þessi fundur var haldinn í húsakynnum BSRB í lok janúar 1995. Eftir fundinn var það ótvíræður skilningur allra þeirra sem á fundinum voru að Finnur Ingólfsson væri andvígur hvers konar einkavæðingu á ÁTVR. Á honum mátti einnig skilja að það væri skoðun þingflokksins að ekki þyrfti að breyta rekstri ÁTVR. Starfsfólk ÁTVR skorar á hæstv. viðskrh., Finn Ingólfsson, að standa við þau orð sem hann lét falla á ofangreindum fundi fyrir kosningar og að hann hafni þeim breytingum sem nú eru boaðar á rekstri ÁTVR.``
    Það er alveg rétt, hæstv. ráðherra, að við eigum ekki að gera lítið úr því að menn standi við gefin fyrirheit. En eins og ég sagði áðan þá höfum við reynt að stuðla að því að hér fari fram vitræn umræða byggð á upplýsingum og rökum. Þetta hefur gengið mjög erfiðlega eins og þeir vita sem hafa fylgst með umræðunni. Það hefur verið erfitt að fá þá sem standa fyrir þessu máli að færa rök fyrir máli sínu og sérstaklega hefur þetta gengið erfiðlega gagnvart hæstv. fjmrh. Látum vera þótt hann eigi í erfiðleikum með að finna pólitískum áhugamálum sínum stoð í veruleika skynsemi og rökvísi. En grundvallarforsenda er að hann fari með rétt mál. Til að firra sig pólitískri ábyrgð og komast undan rökræðu hefur hæstv. fjmrh. iðulega skírskotað í umræðum um þetta mál til þess að embættismenn hafi samið þessi frv. Þeim sé í raun um að kenna hvernig komið er. Þeirra sé ábyrgðin. Hann hefur ekki sagt það þessum orðum en hann hefur ítrekað talið upp þá embættismenn sem hafa staðið að þessari frumvarpssmíð. Þannig hefur ráðherra tvívegis nefnt að forstjóri ÁTVR hafi tekið þátt í nefndum sem gerðu tillögur um starfshætti ÁTVR í framtíðinni og þar með má skilja á honum að hann beri ábyrgð á þeim frv. sem nú eru fram komin. Hæstv. ráðherra veit vel að forstjóri ÁTVR er bundinn trúnaði og má ekki gefa upp með hvaða hætti þátttaka hans var í þessu nefndarstarfi. Niðurstaða umræddra nefnda hafa aldrei verið birtar og að því er mér skilst eru þær algert trúnaðarmál. Ég leyfi mér að óska eftir því að þær niðurstöður, sem þessar nefndir komust að, verði birtar opinberlega því þá kemur í ljós hvort rétt sé hjá ráðherra þegar hann segir að forstjóri ÁTVR beri ábyrgð á samningu frumvarpanna. Að mínu mati er það siðleysi hjá hæstv. ráðherra að ráðast með svona hætti að embættismanni, sérstaklega þegar ráðherra veit að viðkomandi embættismaður er bundinn trúnaði og má ekki gefa upp hver hlutur hans var raunverulega í málinu. Ég leyfi mér að óska eftir því að

þessi gögn verði gerð opinber. Hér fyrr í dag var talað um skýrslur sem Ríkisendurskoðun gerði, það var talað um gráar skýrslur, skýrslur sem væru ekki opnar fyrir þingmönnum. Ég skil vel að það kunni að vera til ýmis opinber gögn sem eru trúnaðarmál sem snerta viðkvæma persónulega hluti, það kunna vel að vera til slík gögn. Hins vegar er óeðlilegt annað en að nefndarálit eða störf og niðurstaða úr nefndarstarfi séu gerð opinber með þeim hætti sem hér hefur verið gert á þingi.
    Síðan vil ég einnig leyfa mér að finna að því að hæstv. ráðherra talaði um það sem einhvern slæman hlut að starfsmannafélag ÁTVR hefði leyft sér að hafa meiningar á þessum málum, skoðanir á þessum málum. Verið að brigsla ráðherra um að hann væri að skipa aðilum í nefndir sem væru málstaðnum andvígar. Eða öllu heldur sem fjölluðu ekki um málið á eðlilegan og óhlutdrægan hátt. Ég færði rök fyrir því í mínu máli um daginn að gagnrýni af þessu tagi frá Starfsmannafélagi ÁTVR ætti við rök að styðjast, hún væri rétt og ekkert óeðlilegt væri við það að samtök launafólks hafi skoðanir á málum sem þessum sem snerta bæði vinnustað þeirra, að ekki sé talað um mál sem snerta þjóðfélagið allt eins og þetta gerir ótvírætt.
    En það var annað sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson gerði um daginn. Hann fór með rangar upplýsingar í rökræðu um efnisinnihald þessa frv. eða þeirra lagabreytinga sem við erum með til umfjöllunar. Ég verð að segja að mér þykir það mjög alvarlegt þegar við erum að ræða um tæknileg málefni, við erum að ræða um eftirlit sem komið verður á, við erum að ræða um hvernig farið verður með opinbera fjármuni og við erum að reiða fram staðreyndir og upplýsingar í þeirri rökræðu að hæstv. fjmrh. sem stendur fyrir þessum lagabreytingum skuli gera sig sekan um að fara með rangfærslur. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðustól að áfengi sem færi til veitingahúsa úr sérpöntunarþjónustu ÁTVR væri ekki merkt ÁTVR. Nú setur hæstv. fjmrh. upp mikinn spurningarsvip og þess vegna held ég að það sé ástæða til þess núna undir lok þinghaldsins að upplýsta hæstv. ráðherra um þá hluti sem hann þekkir greinilega ekki. ,,Sérpöntunarþjónusta ÁTVR?`` spyr hann með stórt spurningarmerki í augunum. Hvað skyldi það vera?
    Það kom fram í málflutningi hans um daginn að hann teldi eftir þeim upplýsingum sem hann byggði á að talsvert væri um að áfengi sem færi til veitingahúsa væri ekki merkt. ( Fjmrh.: Ekki merkt ÁTVR.) Ekki merkt ÁTVR, akkúrat. ( Fjmrh.: Það er merkt VH.) Það er merkt ÁTVR, hæstv. ráðherra, og merkt líka að það fari til veitingahúsa og það sem meira er að víneftirlitsmennirnir sögðu okkur við þessa umræðu, og það er fróðlegt að þetta skuli fara fram núna loksins þegar menn farnir að rökræða hlutina, þeir sögðu við okkur að einfaldasta og besta leiðin til að tryggja bætt eftirlit með áfengisdreifingunni í landinu væri að bæta merkingarnar lítillega. Hægt væri að merkja áfengið hverju veitingahúsi og það væri hægt að setja dagsetningar þarna inn á. Með þessu móti væri auðvelt að bæta eftirlitið með áfengisdreifingunni.
    Málum er þannig háttað, hæstv. fjmrh., ég skal upplýsa hæstv. ráðherra um þetta, að í dag flytur ÁTVR allt sitt áfengi inn beint og milliliðalaust frá erlendum seljendum en allt áfengi sem selt er í veitingahús er merkt sérstaklega með miðum sem límdir eru á hverja flösku. Einnig er möguleiki að brennimerkja flöskurnar í hverju veitingahúsi eins og ég gat um hér áðan og með því móti má sjá hvenær vínið var keypt. Í dag eru nokkrir möguleikar í boði fyrir veitingahús að kaupa inn áfengi fyrir gesti sína og þá er það af vörulista ÁTVR. Það er í gegnum sérpöntunarþjónustu ÁTVR sem hæstv. ráðherra vitnaði til og þekkti ekki hvernig vinnur og síðan eru það frísvæðispantanir en það er fyrirkomulag sem hefur verið notað í ríkari mæli í seinni tíð og hefur salan þar færst í vöxt og svipar um margt sérpöntunarþjónustunni en á það sammerkt henni ásamt allri annarri dreifingu að í öllum tilvikum er um merkingar að ræða.
    Ég gæti rakið tæknilega í smáatriðum hvernig þetta er gert og hvernig þessu er fyrir komið en ég ætla ekki að gera það vegna þess að ég hygg reyndar að það hafi einhvern tíma verið vikið að því áður í þessum umræðum fyrir þá sem hafa viljað kynna sér það eða hlusta á þessar umræður. En hér á ögurstundu þegar á að fara að ganga til atkvæða um þetta rekur hæstv. fjmrh. upp stór augu þegar bent er á einföldustu staðreyndir í málinu. Það er verið að leiðrétta hæstv. ráðherra sem stendur fyrir þessum lagabreytingum þar sem verið er að gera umtalsverða breytingu á heilbrigðisstefnunni, áfengisstefnunni, meðferð með skattpeninga vegna þess að brennivínssalan er ekki bara sala á hverri annarri drykkjarvöru heldur er þetta einnig tæki til að innheimta fjármuni fyrir ríkissjóð. Það er svolítið nöturlegt fyrir ráðherra, sem hafa talað um það á hátíðarstundum í ræðum, að mesta áhyggjuefni sitt séu skattsvik í landinu, það séu 11 milljarðar sem skili sér ekki í ríkissjóð, í samneysluna vegna þess að svikið sé undan skatti, að sömu aðilar skuli nú keyra í gegn lagabreytingar sem sannanlega munu gera allt eftirlit með fjármunum ríkisins torveldara. Á því leikur enginn vafi. En ég leyfi mér að auglýsa eftir því að þeir sem eru annarrar skoðunar færi rök fyrir máli sínu því að ég ber fulla virðingu fyrir þeim mönnum sem telja þessar breytingar vera til góða og geta fært rök fyrir máli sínu. En það alvarlega er þegar menn ákveða að gera grundvallarbreytingar, stilla síðan báðum augum sínum í eitt í miðju enninu, horfa bara beint fram á við, eru gersamlega rökheldir og hafa síðan ekki upplýsingar á hreinu. Mér finnst það vera mjög alvarlegur hlutur. En ég hef beint spurningum til hæstv. starfandi heilbrrh. Ég hef beint spurningum til hæstv. fjmrh. sem ég hef trú á að sé í símsambandi við aðila úti í bæ sem eru að reyna að uppfræða hann á síðustu mínútum þingsins um hvernig þetta sé raunverulega. Við erum að tala um umsetningu upp á 12--14 milljarða kr. og menn eru að reyna að fá upplýsingar á síðustu stundu til þess að geta svarað fyrir sig. Hæstv. forseti, mér finnst átakanlegt að horfa upp á þessi vinnubrögð, upp á þessa handabakavinnu.
    Við fluttum tillögu um að þessum málum yrði vísað aftur til ríkisstjórnar, ekki endilega vegna þess að

við tryðum því að menn kæmust þar að annarri niðurstöðu, heldur til þess að menn ynnu heimavinnuna sína, að menn undirbyggju betur það sem þeir eru að keyra í gegn, að þeir vissu hvað þeir væru að tala um.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en ég hlakka mikið til að heyra rökstuðninginn, að heyra útskýringarnar. Ég spurði um daginn um merkingarnar og þá benti hæstv. fjmrh. á að ekki væri allt áfengi merkt sem kæmi inn í landið. Þannig væri það t.d. í Fríhöfninni þar sem áfengi færi í gegn. Mér brá nokkuð við þetta. Þarna voru einhverjar upplýsingar sem ég greinilega ekki hafði. Síðan fór ég að hugsa málið svolítið betur. Hann var að tala um túrista. Hæstv. ráðherra var að tala um ferðamenn sem kæmu inn í landið. En það sem við hin vorum að gera, við hin vorum að ræða um heildsöludreifingu á áfengi á Íslandi. Þá er það allt í einu orðin röksemd að túristar kæmu hérna inn í landið með ómerkt áfengi. Það eru engar fréttir fyrir okkur hina. En þetta var orðið innlegg í rökrétta umræðu um lagafrumvörp sem snerta ýmsa grundvallarþætti hjá okkur og ég hef áður rakið.