Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 16:35:08 (993)


[16:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það eru orð hv. þm. að talað hafi verið um einhverja hótun í þessu sambandi. Ég hef átt ágætissamskipti við ýmsa aðila sem hafa lögum samkvæmt það hlutverk að koma í veg fyrir of mikla áfengisneyslu hér á landi. Þau samskipti hafa verið ágæt og ég vona að þeir geti ekki kvartað undan þeim samskiptum við mig. Það eina sem ég sagði hér í ræðustól áðan er að ég harmaði að mér hefur fundist sumir þessara aðila, og ég hef tiltekið einn, fara út fyrir efnissvið sitt. Og ég skal bæta því við, og í því er engin hótun falin, að ég hef efasemdir um að sumt af því sem kemur fram í slíkum texta sé málefninu til gagns. Það væri óheiðarlegt af mér að segja þetta ekki hér en ræða það hins vegar við ýmsa aðila utan þessa ræðustóls. Þess vegna þótti mér eðlilegt að þetta væri sagt og ég segi þetta hér og nú af sérstökum ástæðum, m.a. þeim að ég veit að þeir aðilar sem ég nefndi til sögunnar eru hér staddir og mega hlýða á mál mitt þótt þeir geti ekki svarað fyrir sig. En ég er tilbúinn hvenær sem er að ræða við þá. Ef hv. (Gripið fram í.) þm. getur aðeins verið rólegur og setið á sér vil ég eingöngu segja að í þessu fólst engin hótun heldur kannski þvert á móti ósk um að samstarfið væri með öðrum hætti en það sem kemur fram í sumu af því sem hér hefur verið nefnt til sögunnar.
    Vona ég nú að þetta mál hafi skýrst allsæmilega.