Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 16:37:13 (995)


[16:37]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) :
    Herra forseti. Örfá orð út af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan og þeim atburðum sem hv. þm. lýsti í því sem hann kallaði kosningabaráttunni en var á meðan þing starfaði í upphafi þessa árs og náttúrlega að vissu leyti partur að kosningabaráttunni.
    Það er rétt hjá hv. þm. að ég átti fund með þremur eða fjórum fulltrúum starfsmanna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í húsakynnum BSRB þar sem þessir fulltrúar óskuðu eftir því að ég kæmi þar sem formaður þingflokks framsóknarmanna og greindi frá því hver væri afstaða okkar til þeirra frv. sem þá lágu fyrir og efnislega eru samhljóða þeim frv. sem nú eru til umfjöllunar. Ég gerði það á þessum fundi og sagði að ég teldi að þessi frv. færu ekki í gegnum það Alþingi sem þá var starfandi, það væri mitt mat, og tiltók þar einn ákveðinn þingmann Framsfl. sem legðist eindregið gegn þessum frv. eins og þau lágu þá fyrir. Ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem sat þennan fund með mér, muni það eins vel og ég að aðra þingmenn tilgreindi ég ekki að legðust gegn frv. Ég hygg hins vegar að það hefði vel mátt skilja af mínum orðum á þessum fundi að ég legðist gegn þessum frv. og það var rétt, hv. þm. Þess vegna kemur sú ályktun sem ég heyrði að hv. þm. vitnaði í áðan frá starfsmönnum ÁTVR um mína afstöðu til málsins ekkert á óvart. Hins vegar hefði mér fundist að ályktunin hefði þurft að koma frá þeim aðilum sem sátu fundinn því mér finnst einkennilegt ef allir starfsmenn ÁTVR . . .  ( ÖJ: Það var stjórn ÁTVR.) Já, þetta hlýtur að vera frá stjórn starfsmannafélags ÁTVR sem þarna er um að ræða.
    Ég er hins vegar alveg tilbúinn til að viðurkenna og finnst það vera sjálfsagt þegar slík aðstaða kemur upp að menn séu tilbúnir til að taka afstöðu sína til einstakra mála til endurskoðunar í ljósi nýrra upplýsinga, í ljósi breyttra aðstæðna. Og ég viðurkenni að afstaða mín til þessa máls er breytt frá því sem áður var. Fyrir því eru ákveðin rök og fyrir þeirri afstöðubreytingu ætla ég að færa hér nokkur rök og taka örlítinn tíma til þess. Þetta geri ég í ljósi nýrra upplýsinga, þeirra upplýsinga sem ég hef fengið eftir að ég átti þennan fund, upplýsinga sem ég hef haft tækifæri til að skoða í starfi mínu sem iðnrh. Þessi afstöðubreyting byggist á því að ég tel að eftir að ég hef fengi upplýsingar frá samtökum iðnaðarins, rætt við innlenda framleiðendur, þá séu gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir innlenda bjórframleiðendur í þessu máli.
    Samtök iðnaðarins senda frá sér minnisblað um íslenskan bjór og breytingar á áfengislögum 23. maí 1995 og þetta minnisblað hefur verið sent til allra hv. alþm. þannig að allir hv. alþm. munu hafa fengið það í hendur.
    Í öðrum lið þessa minnisblaðs kemur það fram hjá Samtökum iðnaðarins, með leyfi forseta: ,,ESA gerir athugasemdir við gjaldið vegna þess að það mismunaði innflytjendum og íslenskum framleiðendum. ESA krafðist þess að íslensk stjórnvöld legðu gjaldið af og afnæmu sömuleiðis einkarétt ÁTVR á innflutningi áfengis.``
    Í þriðja tölulið þessa sama minnisblaðs, virðulegi forseti, segir svo: ,,Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ákveðið einhliða að breyta fyrri ákvörðunum um að fella gjaldið niður 1. des. 1996 voru íslenskir framleiðendur tilbúnir til þess að sætta sig við niðurfellingu gjaldsins en gerðu þá kröfu að frv. um breytingar á áfengislögum og starfsemi ÁTVR gengju fram samtímis. Þetta varð ekki raunin og staðreyndin er sú að eftir að gjaldið var fellt niður er íslenskum framleiðendum mismunað gagnvart innflytjendum.`` Það er alvarlegt að mér finnst og ekki síst þegar svo skýrt er kveðið að orði eins og í þessu minnisblaði Samtaka iðnaðarins.
    Í fjórða lið kemur fram, virðulegur forseti: ,,Mismunurinn er í því fólginn að innflytjendur þurfa ekki að annast innkaup, birgðahald, flutning og dreifingu eða annað sem heildsali ætti að gera. Þannig hafa umboðsmenn fyrir erlendan bjór hvorki þurft að hafa birgðageymslur né starfslið en notið hagstæðari taxta ÁTVR hjá flutningsaðilum. Á þennan hátt er verið að gera erlendum framleiðendum auðveldara að markaðssetja bjór á Íslandi og jafnframt að bjóða hann til sölu á lægra verði en ella.``
    Þegar þetta 35% gjald var fellt af 1. maí sl. voru gerðar ákveðnar breytingar á verðlagningu innlends og erlends bjórs. Það eru hins vegar allir sammála um að enn er til staðar mismunun í samkeppni milli þessara aðila. Fyrir því get ég fært enn frekar rök, ég ætla ekki að eyða miklu meiri tíma í þessa umræðu en ég er tilbúinn til þess ef menn vilja, en ég hef látið á vegum ráðuneytisins reikna þá hluti út. Það er alveg ljóst, hv. þm., að það er enn þá um verulega mismunun að ræða á milli innflytjenda og innlendra framleiðenda.
    ,,Samtök iðnaðarins telja rétt að allir, bæði íslenskir framleiðendur og innflytjendur, sitji við sama borð. ÁTVR ætti einungis að kaupa bjór eftir hendinni af framleiðendum og innflytjendum sem ættu sjálfir að annast alla aðra þætti, svo sem framleiðslu, innflutning, lagerhald og dreifingu. Með öðrum orðum: ÁTVR á að halda sig við smásöluhlutverk sitt en láta alveg af heildsöluumsvifum hverju nafni sem nefnast. Frv. sem nú liggja fyrir Alþingi eru nauðsynleg forsenda fyrir breytingum``, segir í þessari samþykkt Samtaka iðnaðarins.
    ,,Íslenskir bjórframleiðendur eru ekki hræddir við heiðarlega samkeppni en sjá ekki að niðurfelling bjórgjaldsins ein og sér bæti þar úr``, eins og ég hef áður sagt, ,, því hún leiði til óeðlilegrar samkeppni þar sem innflytjendum er gert hærra undir höfði en íslenskum framleiðendum. Það getur ekki verið ásættanleg staða.``
    Í níunda og síðasta tölulið þessa minnisblaðs segir:
    ,,Þess má geta að á gosdrykkjamarkaði, en gosdrykkir eru að mörgu leyti hliðstæð vara og bjór, er íslensk markaðshlutdeild nú 98%. Þar ríkir fullkomin samkeppni og erlendir framleiðendur hafa greiðan aðgang að markaðnum. Þetta sýnir að íslensku fyrirtækin eru fyllilega samkeppnisfær við þau erlendu. Í bjórnum er markaðshlutdeildin á hinn bóginn 60--65%. Þar hefur hins vegar ríkisvaldið mikil afskipti og greinilegt er að þau koma sér betur fyrir erlenda framleiðendur en innlenda.``
    Svo mörg eru þau orð í þessu minnisblaði Samtaka iðnaðarins.
    Þegar iðnrh. horfir á að ríkisvaldið hefur sett upp ,,apparat`` sem gerir að verkum að innlendum framleiðendum og innflytjendum er mismunað, og það vona ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson skilji, og þrátt fyrir að ég sem þingmaður hafi í kosningabaráttunni talað um og viljað leggjast gegn því að þessi frv. yrðu samþykkt, þegar ég fæ slíkar upplýsingar og trúi og veit að þær eru réttar hlýtur afstaðan að breytast til mála eins og þessara. Ekki síst í ljósi þess, hv. þm., að á síðasta Alþingi flutti ég ásamt fleiri þingmönnum Framsfl. till. til þál. um að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Sú tillaga var samþykkt. Nú er það hlutverk mitt sem iðnrh. að sjá um að hrinda þeirri tillögu í framkvæmd. Einn hluti af þessu er einmitt að tryggja jafna stöðu innlendra framleiðenda og innflutnings.
    Samtök iðnaðarins hafa látið fara frá sér að ef íslenskir neytendur, nú bið ég hv. þm. að hlusta, létu það ávallt ráða að velja íslenska framleiðslu í staðinn fyrir erlenda framleiðslu, ef verðið væri sambærilegt og gæðin væru sambærileg eða þau sömu, þá væri íslenska varan alltaf valin og þá þýddi það hvorki meira né minna en að á einu ári, miðað við hagskýrslur 1991, mundum við spara 20 milljarða íslenskra króna í gjaldeyri. Við hefðum þurrkað út viðskiptahallann á þessum tíma og við hefðum skapað fimm þúsund ný störf í landiu. Og hvað er meira virði um þessar mundir þegar atvinnuleysi hefur herjað á okkur í nokkra tíð en einmitt að leita allra leiða til að draga úr atvinnuleysinu? Einn liður í því er að efla og styrkja íslenska framleiðslu. Ég veit að ég og hv. þm. eigum samleið í því að vilja efla og styrkja íslenska framleiðslu, að auka atvinnu í landinu. Þetta er leið að vissu leyti í þeim efnum, með því að mismuna ekki. Hins vegar eiga menn, og það legg ég alveg kalt mat á í mínum huga, að meta þann árangur sem af því getur hlotist að draga úr þeim samkeppnismun sem er milli innlendra framleiðenda og innflutningsins og svo þeirrar hugsanlegu hættu sem af því getur hlotist að það verði greiðari aðgangur, sem ég veit reyndar að hæstv. fjmrh. neitar algjörlega að um sé að ræða, og treysti ég hans orðum í þeim efnum þar sem hann er yfirmaður þeirrar stofnunar sem fer með þessi verk, sem metur hugsanlegan árangur, og þá tala ég eins og landlæknir talaði í ályktun sinni um hugsanlegar afleiðingar af því að það verði greiðari aðgangur að áfengi og þann skaða sem af því getur hlotist. Þegar maður horfir til þess að það á að setja meiri peninga í forvarnir til að koma í veg fyrir skaðann en áður hefur þekkst hér, þá vel ég þá leið að tryggja að draga úr þeim samkeppnismun sem er milli innlendrar framleiðslu og þeirrar aðstöðu sem innflytjendur hafa. Með þetta í huga, hv. þm., hefur afstaða mín til þessa máls breyst frá því að málin lágu áður frammi á Alþingi.