Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 16:48:58 (996)


[16:48]
     Hjálmar Jónsson :
    Herra forseti. Í þessum svonefndu brennivínsmálum hefur margt verið sagt, vafalaust flest gáfulegt en misjafnlega eftirminnilegt, sjálfsagt allt gott hvað með öðru. Starfsbróðir minn einn sagði forðum að vissir aðilar í þjóðfélaginu kæmu óorði á brennivínið. Nú er búið að breyta þessu og ég hygg að það séu nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hafi tekið yfir í þessu efni.

    Þær breytingar sem um er að ræða og fyrir liggja í frv. sem eru til umfjöllunar fyrir þinginu eru svo sem ekki stórvægilegar. Það er lögð til breyting á fyrirkomulagi á heildsöluverslun með áfengi. Það er ekki verið að breyta um stefnu í áfengismálum eða áfengisvörnum sérstaklega, það er ekki verið að fjölga útsölustöðum frá því sem nú er, það er ekki verið að lækka verð á áfengi. Ég tel ekki ástæðu til að ætla innflytjendum áfengis fremur en öðrum innflytjendum annars varnings óheiðarleika. Allsendis er ástæðulaust að vera að vantreysta kaupsýslumönnum sem flytja inn löglegan varning og stunda heiðarleg viðskipti. Ég á ekki von á öðru en að þeir verði samvinnuþýðir sem flytja inn áfengi, samvinnuþýðir við yfirvöld, tollgæslu og löggæslu, enda hafa þeir auk þess hagsmuni af því að allt sé innan löglegra marka.
    Ef við værum hins vegar ánægð með ástand áfengismála eins og það er í dag væri þörf á að spyrna við fótum til að verja hið góða ástand. En við skulum viðurkenna að ástand áfengismála er í ólestri hjá okkur. Það hefur ekki tekist að stemma stigu við ólögmætri framleiðslu, sölu og neyslu vímuefna í landinu og í því liggur aðalvandamálið. Ég tel ekki rétt að skella skuldinni á væntanlegar breytingar á fyrirkomulagi heildsöluverslunar með áfengi. Það er auðvitað firra. Viðhorfi til áfengisdrykkju og eftirliti er ábótavant hvoru tveggja. Því er það fagnaðarefni að gjald verði tekið af áfengi til forvarna eins og nú liggur fyrir í tillögum og forvarnir verði efldar. Stofnaður verði sjóður tilsvarandi þeim sem Norðmenn og Svíar hafa talað um og Ólafur Haukur Árnason áfengisvarnaráðunautur hefur talað ákveðið fyrir undanfarið.
    Við skulum tala um þetta út frá lífinu sjálfu. Við vitum að börn alast upp við ofneyslu á heimilum og þau verða mörg hver veik fyrir síðar á ævinni þegar þau vaxa upp. Hvað mest ógæfa sem hendir fólk í lífinu er tengd ofneyslu á áfengi. Það eru það þolendurnir, saklausir, börnin, sem eiga samúð mína alla og vissulega einnig fullan vilja til að vinna að úrbótum.
    Alþingi ætti sannarlega að taka til alvarlegrar umfjöllunar þennan raunverulega vanda, sem sé þann að óprúttnir menn, fullorðnir menn, framleiða og flytja inn vímuefni föst og fljótandi og eitra með því fyrir fólk, einkum unglingana í landinu. Það væri vel að í þjóðfélaginu yrði nú upphaf nýs átaks gegn slíku böli og voða. Til þess þarf ekkert minna en hugarfarsbreytingu. Það hefur raunar verið boðað að tekið verði á þeim vanda á haustþingi. Hæstv. heilbrrh. hefur getið þess hér með allskörulegum hætti að hún vilji vinna að því á haustþingi og leggja þá fram frv. til laga um varnir gegn böli áfengis. Vissulega þarf að vinna gegn þeirri fyrirlitlegu iðju sem það er að bregða fæti fyrir ungt fólk með því að byrla því eitur.
    Starf og viðleitni samtakanna Stöðvum unglingadrykkju, Vímulausrar æsku, áfengisvarnaráðs, bindindishreyfinga allra hverju nafni sem nefnast eru virðingarverð og ég hygg að stuðningur við bindindisstarf og áfengisvarnir almennt þurfi að aukast og verða miklu meiri. Það er einmitt það sem nú er verið að boða. Ég hygg líka að menn þurfi að samræma krafta sína til þess.
    En breytingin sem frv. á þessu þingi gera ráð fyrir er ekki hugsuð til að draga úr áfengisvörnum heldur er stefnan að auka og ég hygg að komi eitthvað út úr allri þessari umræðu þessa daga í þinginu sé það einmitt að menn taki þá á í haust þegar þing kemur saman að nýju til þess að vinna verulega og gott starf í áfengisvarnamálunum.
    Virðulegur forseti. Landsmenn þurfa að horfast í augu við þann skaða sem áfengi veldur einstaklingum, fjölskyldum og þjóðfélaginu í heild og horfast í augu við þann skaða allsgáðum augum.
    Í starfi mínu undanfarna tvo áratugi hef ég mátt kynnast mörgum hörmulegum tilvikum og aðstæðum sem eru að gerast í samfélagi okkar og tengd eru áfengisvandamálum. Að því ber að keppa að þjóðin verði alla jafna allsgáð og stefni fram til meira heilbrigðis og lífshamingju. Þar gái hver einn að sjálfum sér og því að ekki sé eitrað fyrir börn og unglinga. Vinnum á réttum vettvangi gegn slíku og með áfengisvarna- og bindindisfólki á öllum sviðum og stigum.
    Hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hér hafa mest haft sig í frammi eru drengir góðir og ég heiti á þá að leggja áfengisvörnum lið þegar þau mál koma til þingsins í haust.