Þingfararkaup

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 17:44:04 (1003)


[17:44]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi og í rauninni hef ég ekki margt um efni þess að segja. Hér er fyrst og fremst verið, eins og kom fram í ræðu hv. 1. flm., að árétta og lögfesta sitthvað sem lýtur að starfsaðstæðum og starfskjörum þingmanna og það er mín skoðun að í því efni sé ekki um neitt óhóf að ræða og á heldur ekki að vera það. Alþingi verður eins og aðrir að sníða sér stakk eftir vexti og getur ekki leyft sér að sækja fyrirmyndir til fyrirtækja eða jafnvel ríkisstofnana sem hvað ríkmannlegast búa að starfsfólki sínu. Það er svo aftur annað mál hvort ekki væri heppilegra, eins og reyndar hv. 1. flm. kom einnig að hér áðan, að hlutlaus aðili hefði það hlutverk að setja reglur um starfsaðstæður og starfskjör alþingismanna rétt eins og Kjaradómi er falið að taka ákvörðun um launakjör þeirra. En það er ekki beinlínis á dagskrá núna og reyndar mér vitanlega ekki væntanlegt á dagskrá.
    Frv. sem hér er til umræðu hefur þegar verið kynnt þingflokkunum og þar með þingflokki Kvennalistans. Ég hef þó ekki beinlínis legið yfir texta þess, en tel þó ekki ástæðu til að gera við það miklar athugasemdir, en þó eina og þeirri athugasemd hefur verið komið á framfæri við þá nefnd þingflokksformanna sem hefur samið það og flytur það hérna. Þessi grein, sem ég vil gera athugasemd við, hefur raunar tekið nokkrum breytingum í meðförum. Þessi athugasemd lýtur að efni 9. gr. frv. eða nánar tiltekið efni 2. mgr. þeirrar greinar og enn nánar tiltekið 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. svo að þetta sé nú alveg ljóst.
    Þar er fjallað um endurgreiðslu starfskostnaðar samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur og eins og hv. 1. flm. lýsti áðan er hér um nýmæli að ræða. Þessi grein hljóðar svo, þ.e. 2. mgr.:
    ,,Endurgreiða skal alþingismönnum annan starfskostnað samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur. Heimilt er að greiða starfskostnað samkvæmt þessari málsgrein sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum.``

    Með þessu ákvæði er verið að heimila greiðslu fastrar mánaðarlegrar upphæðar til að mæta kostnaði sem er nánar skýrður og skilgreindur í skýringum og er þar m.a. talað um ýmsan kostnað. Segir þar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nægir þar að nefna kostnað við kaup á tímaritum, bókum og blöðum, þátttöku í ráðstefnum og námskeiðum og ýmiss konar risnu, t.d. á fundum sem þeir þurfa að standa fyrir sem þingmenn svo að eitthvað sé nefnt.``
    Og það er rétt að þarna er um kostnað að ræða sem verður tæpast umflúinn. Það þekkja flestir hv. þingmenn. Kröfur um slíkt fara sífellt vaxandi og þróunin hefur orðið sú að það hefur orðið æ kostnaðarsamara t.d. að taka þátt í fundum og ráðstefnum af ýmsu tagi. Ég get nefnt sem dæmi að nýlega var haldin ráðstefna hér á landi um mjög áhugavert efni sem sannarlega hefði verið gagnlegt að sækja og var raunar sérstaklega eftir því leitað að alþingismenn sæktu þessa ráðstefnu, en þátttaka í henni kostaði heilar 25 þús. kr. og flestir hugsa sig nú um áður en þeir greiða slíkt úr eigin vasa. Og raunin er sú að flestir eða a.m.k. mjög margir sem sækja fundi og ráðstefnur af ýmsu tagi eru sendir þangað af fyrirtækjum, félögum eða stofnunum sem greiða kostnað af þátttöku viðkomandi, en þannig er því ekki varið með alþingismenn sem greiða slíkt úr eigin vasa eða ekki veit ég betur. Þannig var það a.m.k. Mér finnst eðlilegt að það sé tekið á þessu máli. En ég er ekki sammála því hvernig ætlunin er að taka á því, þ.e. með greiðslu fastrar upphæðar á mánuði án tillits til þess hvort til kostnaðarins hefur verið stofnað eða ekki. Mér finnst eðlilegt að slíkur kostnaður sé greiddur samkvæmt reikningi þannig að um sannanlegan kostnað sé að ræða og að forsætisnefnd setji reglur um það. Ég tek það fram að mér finnst ekki eðlilegt að leysa þetta með því að bjóða alþingismönnum upp á val í þessu efni. Mér finnst að það eigi að gilda hið sama um alla og tel eðlilegt að þessi síðasta setning verði felld niður. Ég vísa því til nefndar sem mun fjalla um málið.