Þingfararkaup

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 17:55:33 (1006)


[17:55]
     Flm. (Geir H. Haarde) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er misminni hjá hv. 17. þm. Reykv. að Kjaradómur hafi fyrst byrjað að hafa afskipti af launum þingmanna árið 1992. Það gerðist miklu fyrr. 1980 var þingfararkaupsnefndin sem hér starfaði lögð niður með lögum og ákvörðun þingfararkaupsins flutt til Kjaradóms. Hins vegar voru ný lög um Kjaradóm samþykkt þarna 1992. Það mun vera það sem hv. þm. hefur eflaust átt við. ( ÖJ: Þar sem þessi ákvörðun var tekin algerlega úr höndum þingsins.) Það var gert löngu fyrr reyndar. Það var búið að því. Þingfararkaupsnefndin var lögð niður og Kjaradómur tók þessi mál í sínar hendur 1980. En það er ekki aðalatriðið.
    Hins vegar vil ég segja það að sú skoðun sem hv. þm. lýsti um hver eigi að taka þessar ákvarðanir er fullkomlega lögmætt sjónarmið og það tíðkast hvort tveggja í löndunum í kringum okkar, ýmist að þingið ákveði sjálft þessar greiðslur allar saman og þar með talin laun þingmanna, eða þá að það sé óháður aðili utan þings sem það gerir. Ég vil vekja athygli á að með frv. er verið að flytja hluta af þessu máli til baka inn í þingið þannig að í raun og veru er verið að fara í nokkrum mæli inn á þá braut sem hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, mælir með. Ef menn vilja ganga lengra verður það að gerast við annað tækifæri, en ég hins vegar tel að sjónarmið hv. þm. sé fullkomlega málefnalegt og fullkomlega eðlilegt að menn skoði það og ræði í tengslum við umræður um þessi mál.