Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 18:14:08 (1009)

[18:14]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 87. Flm. ásamt mér er hv. þm. Ögmundur Jónasson. Tillagan gengur út á að frv. verði fellt og í staðinn fyrir 1.--6. gr. frv. komi nýtt ákvæði sem gangi inn í lögin um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf og er það svohljóðandi:
    ,,Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Komi fram ósk um að tiltekin tegund áfengis eða tóbaks verði flutt til landsins má eigi synja þeim tilmælum nema með vísun til annarra laga en þessara, enda hafi sá er tilmælin bar fram tryggt að Áfengis- og tóbaksverslunin fái andvirði vörunnar greitt.``
    Þetta á sér stoð í því að eitt af þeim atriðum sem menn hafa rætt um að kynni að orka tvímælis gagnvart skuldbindingum okkar á grundvelli EES-samninganna og þessu máli tengjast væri að ekki væri óyggjandi að lög og starfsreglur eða viðskiptahættir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins uppfylltu í öllum tilvikum skilyrði viðskiptahluta samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það mætti hugsanlega finna því stoð að ekki væri nægilega vel tryggt með núverandi tilhögun að fullkomið og ótvírætt jafnræði væri að ræða milli aðila sem vilja bjóða sína vöru fram hér á markaði.

    Nú er það svo að Áfengis- og tóbaksverslunin hefur breytt tilteknum atriðum í starfi sínu og sett sér nýjar innkaupa- og starfsreglur sem m.a. hafa verið samþykktar af fjmrn. og bornar undir eftirlitsstofnun EFTA án athugasemda, en eftir sem áður mætti hugsa sér að ganga enn tryggilegar frá þessu með ótvíræðu, ,,pósitífu`` lagaákvæði sem hægt væri þá að vitna til ef menn héldu uppteknum hætti og væru með klögumál út af þessum þáttum. Það mætti líta til þess að menn hefðu sérstaklega með ,,pósitífu`` lagaákvæði gengið þannig frá því að það væri ótvírætt lögbrot ef um mismunun væri að ræða. Þetta hefur verið má segja annar aðalþáttur gagnrýninnar sem fram hefur komið eða þeirra sjónarmiða sem sett hafa verið fram um að ríkiseinkasala samrýmdist ekki ákvæðum hinna frjálsu markaðsviðskipta eða hvað það nú er sem EES-samningurinn þarna byggir á.
    Hitt hefur verið einhver óljós röksemdafærsla um það að ekki væru fyrir hendi forsendur til þess að það mynduðust sömu viðskiptasamböndin eða samtengslin milli framleiðenda eða söluaðila erlendis og þeirra umboðsmanna hér innan lands í núverandi fyrirkomulagi. Því atriði teljum við að menn eigi einfaldlega að hafna og verja sig fyrir dómi ef til umfjöllunar um það kæmi. En aðgerð af þessu tagi er í sjálfu sér auðvelt að gera gagnvart okkar lögum, að breyta ákvæðum um þetta atriði í lögunum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, og það teljum við sjálfsagt að gera ef það megi verða til þess að mönnum vaxi þá kjarkur og menn leggi í það að standa á þeirri afstöðu sem stjórnvöld hér mótuðu og rökstuddu í tengslum við gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og hafa rökstutt síðan í samskiptum við hina erlendu aðila.
    Herra forseti. Að öðru leyti sé ég ekki eins og nú er komið málum ástæðu til að hafa um þetta mörg orð. Hér hefur farið fram mikil umræða um þessi mál og við höfum, andstæðingar þess, gagnrýnt það mjög harðlega hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hér staðið að málum. Við sjáum enga ástæðu til þess að knýja fram afgreiðslu á þessum miklu ágreiningsmálum við þær aðstæður sem hér eru í þinghaldinu og með öllu óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli leggja jafnmikið ofurkapp og raun ber vitni á að fá þessi mál afgreidd á meðan fjölmörg önnur brýn þjóðþrifamál fá enga meðhöndlun á vorþinginu. Við óttumst það fordæmi sem með þessu er verið að gefa gagnvart hinu erlenda valdi, að það verði svo í framtíðinni og þá í fleiri tilvikum en þessum að í hvert skipti sem aðfinnslur eru gerðar af hálfu erlendra aðila, erlendra eftirlitsstofnana eða dómstóla sem starfa á grundvelli hins evrópska réttar, þá ætli menn að leggja niður skottið og standa ekki á rétti sínum heldur gefast upp fyrir fram og gera þær breytingar sem beðið er um hvort sem þær eru okkur geðfelldar eða hagfelldar eða ekki. Og auðvitað endurspeglar þetta mál í hnotskurn, eins og margir hafa bent á með mjög skýrum hætti, þau tíðindi sem orðin eru í okkar stjórnmálum með aðild okkar að Evrópuréttinum í gegnum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði.
    Þetta mál lýsir því í hnotskurn hvert valdið hefur verið flutt ef svo er komið að við Íslendingar getum ekki lengur haft þá tilhögun á dreifingu þessarar vöru innan lands sem við kjósum. Hér er ekki um það að ræða að við ætlum að byggja á einhverri verndarstefnu, neita mönnum um að þessar vörur séu fluttar inn og að allir njóti þar jafnræðis. Ekki er um það að ræða að hér eigi að mismuna mönnum á grundvelli þjóðernis né neitt slíkt, heldur eingöngu um það að ræða hvort við Íslendingar megum ráða því sjálfir hvernig varan er meðhöndluð innan landsteinanna. Hér er verið að segja að svo sé ekki lengur. Við verðum að gefast upp fyrir klögumálum utan úr heimi, sem að vísu hafa verið framkölluð með kærum af okkar eigin ríkisborgurum, og breyta þessu án þess að svo mikið sem reyna að standa á rétti okkar og verja okkur í málinu. Þetta er dapurlegt, herra forseti. Þetta er ákaflega ömurlegt satt best að segja, en um leið lýsandi fyrir þau kaflaskipti sem orðin eru í íslenskum stjórnmálum. Það er afar hörmulegt hlutskipti manna sem stóðu að því að gagnrýna þennan samning á sínum tíma, draga fram í dagsljósið hvaða breytingar mundu fylgja honum, að þurfa nú að bera ábyrgð á afgreiðslu mála af þessu tagi og bera þar ekki einu sinni hönd fyrir höfuð sér, hvað þá annað.
    Ég vísa til þess sem áður hefur komið fram af okkar hálfu, herra forseti. Við erum algerlega andvíg afgreiðslu þessara mála. Við leggjum því til í þessari breytingartillögu að í stað 1.--6. gr. frv., þ.e. í staðinn fyrir öll efnisákvæði frv. að gildistökugreininni einni undanskilinni, komi sú brtt. sem ég hef hér gert grein fyrir. Þar með væri málið út úr heiminum með mjög farsælum hætti og við gætum vísað til þess að við hefðum tryggt enn frekar en orðið var í okkar löggjöf að við stæðum við okkar samningsskuldbindingar að þessu leyti. Málið væri svo síðan ekki í okkar höndum hvað það snertir hvort slík niðurstaða hér á Alþingi mundi leiða til dómstólameðferðar af hálfu dómstóls Evrópska efnahagssvæðisins í kjölfar þess þá að eftirlitsstofnun EFTA vísaði málinu þangað. Það mundi þá koma í ljós í framhaldinu og við þyrftum ekki að byggja á getgátum eða hótunum í því sambandi heldur mundi einfaldlega á það reyna og við fáum ekki séð að Ísland hafi ekki í þessu tilviki fullan rétt til þess að reyna að verja sinn málstað ef eða þegar til slíks kæmi.