Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 18:26:44 (1011)

[18:26]
     Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 120 um frv. til laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna frá sjútvn.
    Nefndin fjallaði um frv. á fundi í dag og fékk til fundar við sig fulltrúa fyrrverandi deiluaðila sem nú eru orðnir sáttir, þ.e. á fundinn komu Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Kristján Ragnarsson frá Landssamandi ísl. útvegsmanna og Þórarinn Viðar Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Einnig kom á fundinn Árni Kolbeinsson frá sjútvrn.
    Það var farið yfir efni frv. og ræddar brtt. sem nauðsynlegt væri að gera í kjölfar breytinga sem samningsaðilar urðu ásáttir um að gera frá fyrri tilhögun sem fram hafði komið í svonefndri sáttatillögu og eru fluttar á þskj.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum að í 2. mgr. 3. gr. komi fimm dagar þar sem nú stendur vika. Þetta styttir þann frest sem þar er á ferðinni úr viku í fimm daga.
    Við 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. verði sömuleiðis breyting þar sem fjallað er um frest sem úrskurðarnefndin hefur til að fella sína úrskurði. Og orðist 2. málsl. 1. mgr. svo:
    ,,Nái þeir ekki samkomulagi um ákvörðun fiskverðs innan 14 daga ef málið varðar fiskverð í viðskiptum skyldra aðila en innan sjö daga varði málið viðskipti óskyldra skal málið tekið fyrir í fullskipaðri nefnd og skal hún kveða upp úrskurð innan sjö daga ef málið varðar fiskverð í viðskiptum skyldra en innan fjögurra daga varði málið viðskipti óskyldra.``
    Efnislega, herra forseti, styttir þetta frestinn sem um er að ræða í viðskiptum óskyldra aðila úr 14 dögum í sjö og úr sjö dögum í fjóra í viðeigandi tilvikum. Og um þessa breytingu, að stytta þessa fresti, urðu samningsaðilarnir sammála og við leggjum til að svofelldar breytingar komi inn í frv., en að öðru leyti, verði það afgreitt óbreytt.
    Undir nefndarálitið rita allir nefndarmenn sjútvn. og Svanfríður Jónasdóttir, fulltrúi Þjóðvaka, með fyrirvara.
    Það sjónarmið kom fram í nefndinni að rétt væri að athuga hvort möguleiki væri á því að frv. gæti rekist á við ákvæði samkeppnislaga og höfðu menn þá væntanlega einkum í huga hvort úrskurðir nefndarinnar eða ákvarðanir, sem hefðu bein áhrif á fiskverð í viðskiptum óskyldra aðila, gætu með einhverjum hætti flokkast undir samkeppnishindrandi aðgerðir eða með öðrum hætti rekist á ákvæði samkeppnislaga. Í framhaldi af fundinum var haft samband við Samkeppnisstofnun og stofnunin beðin að athuga eins og kostur væri á skömmum tíma sem til stefnu var í dag hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af þessum þætti sérstaklega. Eftir lauslega athugun, eða athugun eins góða og kostur var við þessar aðstæður, þá er það niðurstaða Samkeppnisstofnunar, eða þeirra sérfræðinga þar á bæ sem þetta skoðuðu í dag, að í fljótu bragði sjái þeir ekki ástæðu til að óttast að þarna verði um árekstra að ræða.
    Í fyrsta lagi megi reyndar velta því fyrir sér hvort málið sem slíkt geti komið til kasta Samkeppnisstofnunar eða Samkeppnisstofnun sé til þess bær að fjalla um það þar sem um kjarasamningaatriði er að ræða og það er eðli málsins samkvæmt þannig að eins og menn þekkja, þá gera samkeppnislögin ekki ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun blandi sér í þætti sem samkvæmt vinnulöggjöf eða venju á vinnumarkaði falla undir efni kjarasamninga eða eru leyst í kjarasamningum. Strax með þessum fyrirvara er ekki víst að það kæmi yfirleitt til kasta Samkeppnisstofnunar að taka fyrir mál sem af þessu kynni að rísa.
    Í öðru lagi: Þó svo væri er það niðurstaða Samkeppnisstofnunar, eins og ég segi, í fljótu bragði að þeir sjá ekki að ástæða sé til að óttast að þarna verði um árekstra að ræða.
    Í þriðja lagi kæmi til slíks að til stofnunarinnar væri beint umkvörtun út af árekstrum við samkeppnislög mundi umfjöllun um slíkt falla undir ákvæði 19. gr. samkeppnislaga og eru þá fyrst og fremst í því formi að Samkeppnisstofnun lætur í ljós álit sitt og beinir tilmælum til stjórnvalda en ekki í því formi að þau ákvæði laganna sem fjalla um úrskurðarvald Samkeppnisstofnunar eða aðra slíka þætti verði virk. Jafnvel þó svo færi og það yrði metið svo að Samkeppnisstofnun bæri að fjalla um mál sem þangað væri vísað, þá mundi hennar umfjöllun væntanlega verða á grundvelli 19. gr. og í þessu formi þannig að þá gæfist stjórnvöldum í staðinn kostur á að bregðast við og taka slík tilmæli til meðferðar og slíkar ábendingar þannig að úr því mætti þá vinna.
    Í þessu ljósi sýnist mér mega gefa mönnum nokkuð góða vissu um það, herra forseti, að ekki sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins.
    Eins og kunnugt er, herra forseti, standa yfir atkvæðagreiðslur í dag um téðan samning sem undirritaður var í nótt og það er líklegt að þeim atkvæðagreiðslum og talningu ljúki núna undir miðnættið. Þess vegna var spurning hvort ástæða væri til að bíða með gildistöku laga þessara eða endanlega afgreiðslu þeirra þangað til ljóst væri hver niðurstaðan er því að augljóslega er efni frv. órjúfanlega tengt þessum samningum og á ekki erindi inn í landslög nema svo fari að þessir samningar náist og þeir verði samþykktir, en í því sambandi höfum við rætt og það hefur verið athugað í dag hvort ekki megi leysa úr því atriði með því að flytja brtt. við gildistökuákvæði frv. ef til kemur, þ.e. ljúki Alþingi störfum áður en ljós er niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni, og þá yrði þannig frá því gengið í því gildistökuákvæði að gildistaka laganna yrði tengd þeirri forsendu að samningarnir yrðu samþykktir. Ég tel þá eðlilegt að bíða með flutning slíkrar brtt. þangað til við 3. umr. málsins ef á það reynir, þ.e. í ljósi þess að Alþingi er þá að ljúka störfum áður en niðurstaða liggur fyrir úr talningu.
    Að þessu sögðu, herra forseti, mælum við með því eins og áður segir að frv. verði samþykkt með brtt. sem flutt er í nefndaráliti á þskj. 120.