Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 18:36:04 (1012)


[18:36]
     Svanfríður Jónasdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli frsm. nefndarálits skrifa ég undir álitið með fyrirvara. Menn geta leikið sér að því að kalla það varkárni viðvaningsins, ekki síst í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram í þingsölum um fyrirvara og síðan önnur þau orð eða þær hugmyndir sem menn kunna að hafa um þau lög sem fjallað er um.
    En allt um það. Minn fyrirvari tengist fyrst og fremst hugleiðingum og spurningum sem munu vaka áfram vegna þess að ég geri mér fullvel grein fyrir því, virðulegi forseti, að svör við þessum spurningum fást einungis við framkvæmd, við reynslu af því frv. sem hér liggur fyrir sem hefur þá sérstöðu að vera hluti samnings á milli sjómanna og útgerðarmanna og verður ekki breytt efnislega á hinu háa Alþingi. Eigi að síður ber Alþingi ábyrgð á þessum lögum líkt og öðrum landslögum. Þess vegna, virðulegi forseti, tel ég að það sé mikilvægt að við reynum að gera okkur grein fyrir inntaki laganna þrátt fyrir að þeim megi ekki breyta.
    Mér er ljóst að tilgangur þessara laga er fyrst og fremst sá að hér skapist vettvangur þar sem sjómenn og útgerðarmenn geta í fullu trausti hver til annars úrskurðað um fiskverð sem sjómenn geta verið sáttir við. Sú niðurstaða að fara í þessa úrskurðarnefnd er í rauninni afleiðing af tortryggni sem hefur verið ríkjandi á milli þessara aðila vegna þess að ýmsir útgerðaraðilar hafa notfært sér þann sveigjanleika sem er í lögunum um stjórn fiskveiða varðandi framsal á kvóta með þeim hætti að sjómenn hafa verið hlunnfarnir. Áður hefur verið gerð tilraun með nefnd, það var í kjölfar síðustu samninga sjómanna, og á fundi hv. sjútvn. í dag spurði hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hvort þessi nefnd yrði betri, hvort menn reiknuðu með að hún skilaði meiri árangri en sú nefnd sem áður hafði verið að störfum. Svör sjómanna voru þau að menn færu með jákvæðum hug inn í þetta starf engu síður en hitt. Menn væru staðráðnir í að traust skapaðist á milli aðila og munurinn væri sá að nefndin sú hin fyrri sem hefði flosnað upp hefði einungis átt að skila áliti, en þessi nefnd eigi hins vegar að veita úrlausnir. Hún á að skera úr um mál svo að óyggjandi sé. En þar komum við kannski að því nákvæmlega sem gerir það að verkum að við hljótum að íhuga örlítið hvaða afleiðingar þau lög sem frv. stefnir til gætu haft á ýmsa þá þætti hér í þjóðlífinu varðandi verðlagningu á fiskafurðum og annað það í okkar efnahagslega umhverfi sem því tengist.
    Ef við lítum á 1. gr. þá er þar kveðið á um að nefndin hafi það hlutverk að ákveða fiskverð sem nota skuli við uppgjör á aflahlut. Virðulegi forseti. Hér má álykta sem svo að um gæti orðið að ræða nokkurs konar pappírsverð, þ.e. verð sem samið yrði um án tillits til þess hvað útgerðin raunverulega fær greitt fyrir afla, þ.e. að gerðir verði fastir samningar um verð. Í tengslum við það getum við velt því fyrir okkur hvort hér sé verið að stíga skref eða opna fyrir það að stigin verði skref frá hlutaskiptum. Og við getum líka velt því fyrir okkur, og það tengist þá beint, hvernig það síðan samræmist ákvæðum um hæsta gangverð fyrir fisk. Ef við lítum til 2. gr. þar sem kveðið er á um að nefndin skuli reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best, og þar er talað um yfirlit um fiskverð á einstökum landsvæðum, þá gætum við einnig velt því fyrir okkur hvort þessi ákvæði gætu leitt til þess --- og nú er þetta allt í viðtengingarhætti, virðulegi forseti, því að eins og ég sagði áðan er minn fyrirvari fyrst og fremst tengdur hugleiðingum vegna spurninga sem munu vaka áfram --- en gæti með þessum hætti þróast fast fiskverð sem yrði þá mismunandi eftir landshlutum? Ef tekið er tillit til bæði þess sem gerist í beinum viðskiptum á milli aðila og þeim viðskiptum sem fara á markaði, þá gætum við ályktað sem svo út frá þeirri reynslu sem við höfum að fiskverð gæti orðið mismunandi eftir landshlutum og við gætum þá velt því fyrir okkur í framhaldi þess hver afleiðing þess yrði fyrir þróun vinnslunnar, hver afleiðingin yrði varðandi þá sérhæfingu sem ég hygg að við séum öll sammála um að þurfi áfram að eiga sér stað í vinnslunni, sem þurfi að þróast áfram vegna þess að á því ríður um lífskjör, ekki bara þess fólks sem í fiski vinnur heldur okkar allra. Við veltum því þá í framhaldi fyrir okkur hvort sala á óveiddum fiski muni áfram á ákveðnum landsvæðum sjá um að sú sérhæfing í vinnslunni sem við viljum sjá haldi áfram því að það er ljóst að viðskipti sem kölluð hafa verið ,,tonn á móti tonni`` eru ekki búin með þessum lögum eða með þessari úrskurðarnefnd.
    Í 5. gr. er talað um verð í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum og það leiðir okkur aftur, virðulegi forseti, inn í vangaveltur um möguleika fiskvinnslunnar til sérhæfingar og þess fjölbreytileika sem þar er að verða. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvernig verði í framtíðinni tekið á því þegar mismunandi er hver leggur til kvótann. Verður sama verð greitt án tillits til þess hver leggur kvótann til? Verður sama verð greitt án tillits til þess hvort vinnslan leggur til kvótann, hvort hann er úthlutaður skipinu eða hvort landað er tonn á móti tonni? Þannig, virðulegi forseti, eru ýmsar spurningar sem vakna við lestur frv. og það eru spurningar sem varða ýmis grundvallaratriði sem mörgum hverjum verður ekki svarað fyrr en reynslan er búin að skera úr um hvernig þessi úrskurðarnefnd muni reynast.
    Það er eitt atriði í viðbót sem ég vil gera að umræðuefni vegna þess að með því að Alþingi setur hér lög um þessa úrskurðarnefnd tekur það að sjálfsögðu ábyrgð á þessum lögum og í lögunum er ákvæði um oddamann, oddamann sem sjútvrh. er ætlað að skipa og mundi þannig starfa á ábyrgð ríkisvaldsins.
    Í fyrsta lagi hljótum við að velta því fyrir okkur hversu langt frá eða nálægt við erum þá komin því fyrirkomulagi sem áður ríkti þegar oddamaður gjarnan skar úr um fiskverð og síðan gátu aðilar, útgerð eða fiskvinnsla eftir atvikum, varpað ábyrgð af afkomu sinni yfir á ríkisvaldið. Ég held að við hljótum að velta þessari spurningu fyrir okkur og við hljótum að fylgjast með framgangi þessa máls og gaumgæfa hvernig því vindur fram.
    Þetta eru þær spurningar sem vöknuðu í mínum huga við að lesa frv. sem hér liggur fyrir. Spurningunni um samkeppnislögin svaraði formaður hv. sjútvn. áðan eins vel og henni er hægt að svara núna, en eins og ég gat um í upphafi setti ég minn fyrirvara vegna spurninga sem ég veit að mörgum hverjum verður ekki svarað í bráð. En hér liggur fyrir frv. sem varðar samkomulag sjómanna og útvegsmanna. Hér liggur fyrir texti sem þeir hafa orðið sammála um. Og ég mun styðja þetta mál þegar það kemur til afgreiðslu.