Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 19:13:29 (1013)

[19:13]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Að mínum dómi hafa menn stutt áfengisfrv. á þrenns konar forsendum.
    Í fyrsta lagi eru það hagsmunir. Þeir eru til sem telja að gróðasjónarmið eigi að ráða ferðinni í áfengissölu.
    Í öðru lagi eru það hugsjónamennirnir, pólitísku frjálshyggjumennirnir, þeir sem eiga sér þann draum æðstan að koma öllu lifandi og dauðu á markað, líka brennivíni.
    Í þriðja lagi eru það þeir sem gjarnan vildu hlusta á sjónarmið og varnaðarorð heilbrigðisyfirvalda og almannasamtaka sem starfa á sviði áfengisvarna, en telja að fyrirkomulag eins og er nú við lýði stríði gegn skuldbindingum okkar gagnvart EES.
    Hér er tækifæri fyrir þessa aðila að styðja tillögu um lagabreytingu sem ætla má að taki af öll tvímæli í þessu efni. Ég segi já.