Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

27. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 19:45:53 (1020)

[19:45]
     Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon ):
    Herra forseti. Eins og ég tók fram höfum við útbúið brtt. ef svo skyldi fara að Alþingi lyki fyrr

störfum í kvöld en niðurstaða lægi fyrir í atkvæðagreiðslu sjómanna um nýgerðan kjarasamning. Þá væri eðli málsins samkvæmt eðlilegt að ganga þannig frá gildistökuákvæðum frv. að ótvírætt væri að lögin öðluðust þá aðeins gildi að hinir tilskildu kjarasamningar milli Landssambands ísl. útvegsmanna annars vegar og sjómannasamtakanna hins vegar yrðu samþykktir. Nú lítur út fyrir að Alþingi ljúki störfum á næstu mínútum eða næstu klukkustundum eða svo, en niðurstaða mun væntanlega ekki liggja fyrir í talningu atkvæða fyrr en undir miðnætti þannig að ég flyt fyrir hönd sjútvn., sem ekki hafði tök á því að koma saman sérstaklega út af þessu máli, en ég leyfi mér að fullyrða að það sé í fullri sátt við það sem áður var rætt um málið, brtt. sem gerir ráð fyrir að gidistökuákvæði laganna sé bundið því að kjarasamningarnir verði samþykktir. Og af því leiðir einnig að gera þarf þá breytingu að gildistökuákvæðið hvað varðar niðurfellingu eldri lagaákvæða verði sömuleiðis tengt saman og um það fjallar annar liður brtt.