Þingfrestun

29. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 20:42:59 (1051)

[20:42]
     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Hv. alþingismenn. Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf 119. löggjafarþings.
    Þingið stóð yfir frá 16. maí til 15. júní. Þingfundadagar urðu alls 19. Þingfundir hafa verið 29.

     Þingmál og úrslit þeirra:

     Lagafrumvörp voru samtals 29.
    Stjórnarfrumvörp voru 20 og þingmannafrumvörp 9.
    14 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru sex.
    Fimm þingmannafrumvörp urðu að lögum en fjögur þingmannafrumvörp eru óútrædd.
    Af 29 frumvörpum urðu alls 19 að lögum.

     Þingsályktunartillögur voru alls 9.
    Stjórnartillögur voru tvær og þingmannatillögur voru sjö.
    Þrjár tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis og sex eru óútræddar.


     Fyrirspurnir voru 10. Svör bárust við sjö fyrirspurnum. Munnlegar fyrirspurnir voru fimm og var þremur svarað. Beðið var um skrifleg svör við fimm fyrirspurnum og bárust svör við fjórum.

    Alls voru til meðferðar í þinginu 48 mál, þar af hlutu 29 þingmál afgreiðslu og tala prentaðra þingskjala var 143.

    Eins og sjá má af þessu yfirliti hafa allmörg mál verið afgreidd á þessu þingi þó staðið hafi stutt. Þingið hefur afgreitt brýn og mikilvæg mál og má þar nefna staðfestingu frv. um ný mannréttindaákvæði í stjórnarskrána sem er veigamikil réttarbót fyrir landsmenn alla. Af öðrum merkum málum má nefna breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegar hafa verið í framhaldi af staðfestingu Íslands á samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
    Um þessi síðastnefndu og reyndar fleiri þingmál hafa orðið snarpar og oft á tíðum skemmtilegar umræður og er ánægjulegt hversu nýir þingmenn hafa verið virkir í þeim umræðum. Í þessu sambandi vil ég rifja upp orð mín á þingsetningarfundi þann 17. maí sl. Þá sagði ég m.a. er ég ræddi um svipmót þingsins:
    ,,Þingmenn gætu sýnt meiri háttvísi í orðavali og framgöngu hver gagnvart öðrum, enda eru það þingmenn sjálfir sem mest áhrif hafa á hver ímynd Alþingis er í augum þjóðarinnar.``
    Ég er mjög ánægður með hvernig þingmenn hafa brugðist við þessum orðum mínum og þykir mér sem þeir hafi tekið tillit til þeirra og mér finnst hafa verið góður blær á þingstörfunum þennan tíma. Vil ég láta í ljós sérstakar þakkir mínar til þingmanna fyrir samstarfsvilja þeirra.
    Þetta annasama en stutta þing hefur um margt verið lærdómsríkt fyrir þá okkar sem kjörnir voru til að stýra störfum þess. Það er ljóst að ýmislegt í skipulagi þingsins má betur fara. Ég hyggst því beita mér fyrir því að tíminn fram að haustþingi verði notaður til að vinna að þeim breytingum sem æskilegt er að gera á þingsköpum og sem ætla má að samstaða geti tekist um meðal allra þingflokka. Um þetta mál mun ég hafa fullt samráð við formenn þingflokkanna.
    Eins og þingmönnum er kunnugt verða 150 ár liðin frá endurreisn Alþingis hinn 1. júlí nk. Þó að vitaskuld séum við stolt af aldalangri sögu Alþingis, þá er engu að síður vert að minnast þessara tímamóta því að fundur Alþingis þann 1. júlí 1845 markaði upphaf Alþingis sem nútímalöggjafarstofnunar. Það er ætlun forsætisnefndar að þessa afmælis verði minnst með þeim hætti að almenningi verði gefinn kostur á að heimsækja þingmenn á vinnustað þeirra hér í Alþingishúsinu og fræðast um störf þeirra. Þess er vænst að helst allir þingmenn, þar með taldir að sjálfsögðu forsætisnefndarmenn þingsins og ráðherrar, geti verið í þinghúsinu þann tíma sem þingið verður opið og rætt við gesti en ætlunin er að það verði frá hádegi til kl. 4 sídegis.
    Nú við lok þinghaldsins vil ég ítreka þakkir mínar til allra þingmanna fyrir ánægjulegt samstarf á þessu þingi. Forseti þarf eðlis starfs síns vegna að hafa nána samvinnu við varaforseta þingsins og formenn þingflokka. Ég vil því færa varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu og aðstoð við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokkanna fyrir mjög gott samstarf.
    Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný þegar Alþingi kemur saman í haust.