Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 15:22:12 (2537)

1996-01-30 15:22:12# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[15:22]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er eins og áður hefur verið bent á til umræðu afskaplega mikilvægt frumvarp enda snertir það gjöfulustu auðlind þjóðarinnar. Það er vert að hafa í huga hvernig umræða meðal almennings hefur verið um sjávarútveg og fiskvinnslu en þó einkum fiskveiðar á síðustu árum. Það má með sanni segja að um sumt hefur þessi umræða snúist á neikvæðari veg þannig að sú jákvæða umræða sem áður fór fram almennt um fiskveiðar og sjómennsku hefur breyst. Til þess eru vitaskuld margar ástæður. Má þar nefna m.a. þá tilhneigingu fjölmiðla að velta upp fyrst og síðast hinum neikvæðari hliðum mála. Í öðru lagi hlýtur umræðan að eiga einhverja rót í því að afli á miðum okkar hefur verið í vonandi sögulegu lágmarki og er vissulega gleðilegt að nú skulum við vera á leið upp á við. En ekki síst hygg ég að umræðan hafi mótast af því úrkasti sem hér hefur verið gert að umtalsefni. Menn draga svo af þessu ólíkar ályktanir. Hér má heyra ályktanir um að úrkastið megi rekja til þess að við búum við aflamarkskerfi. Á móti því má hins vegar benda á að sögusagnir úr Smugunni og af þeim veiðum sem ekki eru bundnar við aflamark fela í sér ekki síður ógeðslegar sögur af því hvernig fiski er hent í sjóinn. Þar er ekki aflamark ráðandi heldur sóknarstýring. Hins vegar hygg ég að flestir geti verið sammála um að helstu annmarkar aflamarkskerfisins eru þeir tveir þættir sem hér hafa verið nefndir og tengjast úrkastinu, þ.e. annars vegar meðafli og hins vegar undirmálsafli. Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé verið að reyna að sníða þessa helstu annmarka af aflamarkskerfinu.

Það er líka vert að hafa í huga að álit nefndarmanna er samhljóma. Nefndarmenn eru einstaklingar sem allir eiga það sammerkt að hafa reynslu og starfa að fiskvinnslu og útgerð. Það hlýtur að vera mark á þeim takandi enda vilji þeirra til að bæta umgengni um auðlindina fyrir hendi. Ég tek reyndar undir þá gagnrýni að ekki skuli þó fulltrúar allra þeirra útgerðaraðila sem að málinu ættu að koma hafa átt sæti í nefndinni.

Í heildina tel ég að frumvarpið sé til bóta. En ég vil nefna hér nokkur atriði sérstaklega. Ég hlýt að andmæla þeim orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann segir að engin tilraun sé gerð til að taka á hinu svokallaða meðaflavandamáli. Þar virðist hv. þm. hafa litið fram hjá því sem stendur í 4. gr., þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflamarki nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni,`` o.s.frv. Þarna er verið að gera tilraun til að fá útgerðir til að skipuleggja veiði sína á grundvelli úthlutaðs aflamarks. Af þessu er reynsla og í nýlegri ferð hv. sjútvn. um Norðurland kom einmitt fram í máli útgerðaraðila að þannig hafa þeir skipulagt veiðar sínar og útgerð á síðustu árum. Það er það sem er verið að gera og segir beinlínis í 4. gr. Þannig að ákvæði um meðafla tel ég vera af hinu góða og þar sé stigið mjög djarft skref til að draga úr úrkasti tengdu meðafla. Hér er um samhljóða álit nefndarinnar að ræða og það hlýtur að segja hv. þingmönnum töluvert um gildi þess.

Ég vil nefna til viðbótar tvo þætti sem ég hef efasemdir um. Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að á grundvelli vinnu þeirrar nefndar sem frumvarp þetta byggir á hafi verið gefin út reglugerð þar sem heimilað er koma með hluta af undirmálsfiski að landi án þess að það dragist frá aflaheimildum. Ég hef verulegar efasemdir um framkvæmd þessa máls, hvernig hægt er að mæla þennan hluta undirmálsfisksins. Ég hef áður lýst því hér á þessum vettvangi og geri það aftur að ég tel ekki nógu langt gengið af hálfu hæstv. ráðherra. Ég teldi eðlilegt að allur undirmálsfiskur skuli koma að landi og hann síðan seldur á verði sem er verulega undir almennu markaðsverði á aflamarkstegundunum. Þetta er veikleiki sem ég sé í þessu frumvarpi.

Í annan stað vil ég taka undir þá gagnrýni sem kemur fram um 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir að netabátar undir 20 brúttólestum skuli ekki geta stundað veiðar á bilinu 1. nóvember til loka febrúar. Ég sé ekki nein vísindaleg eða markviss rök færð fyrir þessu. Ég tel álit þeirra sem stunda m.a. saltfiskvinnslu og eru mjög háðir veiðum þessara báta á Suðurlandi, Reykjanesi og á Vesturlandi skipta miklu. Þeir aðilar telja að vandamálið sé ekki til staðar, það heyri sögunni til. Þeir netabátar undir 20 brúttólestum sem nú stunda netaveiðar fyrir m.a. saltfiskvinnslu fylgjast mjög vel með veðurfari og það má heita með öllu horfið að þessir bátar skilji eftir net í sjó. Ég sé sem sagt ekki vísindaleg rök fyrir þessu, ég sé ekki að vandamálið sé til staðar. En verði þetta ákvæði að lögum mun það hafa mjög óheppileg áhrif fyrir þau svæði sem ég nefndi áðan, ekki síst í saltfiskvinnslu. Þess vegna teldi ég eðlilegra að færa mörkin niður í 10 brúttólestir. Enda segir í frumvarpinu að ráðherra hafi heimild til að hafa tveggja ára aðlögunartíma. Ég teldi eðlilegt að gefa þessari stærð báta þann aðlögunartíma og meta stöðuna síðan að tveimur árum liðnum.

Þá vil ég enn fremur taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals, þar sem hann fjallaði um meðaflann og taldi hyggilegra að hann kæmi allur að landi. Það má hafa í huga að skammar eru skipsrár og hverful haustgríma. Auðvitað geta óhöpp orðið jafnt á minni bátum sem hinum stærri og þegar þau óhöpp verða er óeðlilegt að ganga rösklega fram í refsingum. Það ætti frekar að heimila bátum þegar óhöpp verða að koma inn með allan aflann, en setja góða stjórn á verðlagningu hans.

[15:30]

Þetta eru þau ákvæði sem ég tel vera helstu annmarka þessa frumvarps. Það má svo sem gera að umtalsefni refsigleði frumvarpsins, en ég læt það eiga sig að sinni. Ég vil hins vegar taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um vistvænar veiðar. Það hugtak mætti sjást inni í þessu frumvarpi. En ugglaust kallar það á langa og mikla umræðu því nokkuð virðist óljóst og á reiki hvað menn eiga við með hugtakinu ,,vistvænar veiðar``. Ég á því von á að það verði nokkuð skemmtilegt starf fram undan í sjútvn. þar sem þeir þættir sem hér hafa sérstaklega verið gerðir að umtalsefni koma til umræðu.