Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 15:32:33 (2540)

1996-01-30 15:32:33# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[15:32]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að öllum sem nálægt sjávarútvegi koma sé fyrir löngu ljóst eftir að við höfum reynt að stjórna fiskveiðum okkar með svokölluðu aflamarki í 12 ár að stjórnun fiskveiðanna með aflamarki getur aldrei verið annað en eilíf vandræði, alveg sama hvernig á það er litið. Þar rekst hver á annan.

Eigi að síður hlýtur það að vera virðingarvert og skiljanlegt að hæstv. sjútvrh. leggi fram frumvörp þar sem hann reynir að koma inn í löggjöfina einhverjum þeim atriðum sem gætu orðið til að bæta þá umgengni sem við vitum að hefur verið þannig að þessari svokölluðu stjórnun fylgir gífurleg sóun.

Mér fannst samt, herra forseti, dapurlegt að heyra hæstv. ráðherra geta þess að hann teldi að sumir þeirra sem segðu sögur af mikilli sóun væru kannski menn sem vildu brjóta niður fiskveiðistjórnarkerfið. Ég tel að þetta sýni hvumpni og viðkvæmni sem ástæðulaust er að hafa. Ég veit að engu hefur verið logið þar um og ég ætla að hið háa Alþingi hafi hvorki heyrt um né vitað af nema broti af þeirri skelfingu sem yfir okkur hefur dunið varðandi meðferð fisks og því gríðarlega magni sem hefur verið hent á umliðnum árum eftir að við tókum upp þessa stjórnun.

En á meðan þessi löggjöf er í gildi komumst við ekki hjá því að reyna að stjórna eftir henni og því er eðlilegt að slíkt frumvarp sé lagt fram. Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til að vinna að því þegar frumvarpið kemur til meðferðar sjútvn. þingsins að við reynum að gera okkar besta til þess að lögin verði þannig úr garði gerð að til gagns geti orðið.

Það er þó fjöldamargt í frumvarpinu sem ég verð því miður að viðurkenna að ég skil alls ekki. Ég skil ekki hvernig menn hugsa sér framkvæmdina. Þar stingur mest í augu hjá mér er seinni hluti 4. gr. eins og hv. þm. Pétur Blöndal las hana upp áðan. Væntanlega munu höfundar frumvarpsins, fiskistofumenn og ráðuneytismenn, koma til nefndarinnar og skýra þá fyrir okkur hvern veg þeir ætla að þetta geti gengið fram. En í mínum huga er þetta sem sagt enn þá óskiljanlegt. Þetta er nefnilega mjög flókið mál hvernig á að ætla hugsanlegan afla í einni veiðiferð. En við skulum láta það bíða betri tíma.

Fleiri atriði stinga líka dálítið í augu eins og hin rismikla 11. gr. um þátt ökumanna í þessu máli o.fl. o.fl. Við skulum varast að fara út í það að tína til svona smámuni. Ég ætla ekki heldur að ræða á þessu stigi málsins um refsigleðina sem þessu fylgir. Mér finnst þó dálítið skrýtið að sjá þessi paragröf hér sömu dagana og rætt er um það að glæpamenn þjóðarinnar gangi meira og minna lausir vegna þess það sé ekki pláss fyrir þá í betrunarhúsum.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég áskil mér allan rétt til breytinga, fyrirspurna og stuðnings við einstakar greinar frumvarpsins. Ég vil jafnframt taka það fram að ég ætla að sjálfsögðu að vinna eins vel og hugsast getur að því í sjútvn. að það sem til heilla kann að horfa megi fram ganga.