Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:26:21 (2548)

1996-01-30 16:26:21# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er ekkert af þessu einfalt og það eru engar töfralausnir til í þessu. Menn mega ekki alltaf umgangast umræður um þessi mál þannig að um leið og bent er á einhverja erfiðleika samfara breytingum á þessu kerfi sé það þar með slegið af. Það hafa menn gert of lengi og nánast rætt um aflamarkskerfið eins og það væri fullkomið. Það væri einfaldara að neita öllum göllum á því en horfast í augu við það og reyna að leysa það. Það er óskynsamlegt.

Í öðru lagi er mismunandi auðvelt fyrir útgerðirnar að skipuleggja útgerðarhætti sína með tilliti til þess að nýta veiðiheimildirnar yfir allt árið. Það er auðveldara hjá stórum útgerðum með mörg skip og blandaðan kvóta. Það er erfiðara hjá einyrkja í útgerð sem tekur kannski fiskkvóta á vetrarvertíðinni og stundar svo rækjuveiðar á sumrin. Hann hefur ekki sömu aðstöðu til þess að dreifa þessu yfir allt árið. Ef meðafla er hent svo nemur tugum þúsunda tonna á ári hverju á Íslandsmiðum svo að eitthvað sé nefnt er það engum til góðs að horfast ekki í augu við þá staðreynd, reikna með þeirri úrtöku úr auðlindinni og reyna að ná þeim verðmætum að landi. Aðalatriðið er að horfast í augu við það og ræða þá ekki um málin út frá þeirri staðreynd að ef ástandið er svona er það engum til góðs að reyna að takast á við það. Ég vona að það sé ekki vilji nokkurs manns að mæla úrkasti bót og ekki sé betra að meðaflinn kæmi þá að landi.