Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:33:26 (2552)

1996-01-30 16:33:26# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Má ég í tilefni þess lofgerðaróðs sem hæstv. sjútvrh. flutti um mig hér áðan, grípa til engilsaxnesku og segja: Flattery gets you nowhere.

Virðulegi forseti. Það er einn af kostum hæstv. sjútvrh. að hann á afskaplega erfitt með að fara vísvitandi með ósannindi. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan í sinni örstuttu ræðu sem var hin langmerkasta sem hann hefur flutt í dag, nokkra afar merka hluti. Hann sagði: Þetta var vandamál. Síðan benti hann mér á að hann hefði þróað skoðanir sínar við umræðurnar í dag í þá veru að hann er nú farinn að segja að það hafi dregið úr þessum vanda. Ég er sammála um hvort tveggja, en þá spyr ég, herra forseti: Ef þetta vandamál er miklu minna en áður og ef það heyrir bara fortíðinni til, hvers vegna er þá lagt til að þessum bátum verði bannaðar þessar veiðar? Þetta er í fyrsta skipti, herra forseti, sem ég beinlínis sé hæstv. sjútvrh. leggja lensu sinna eigin raka í eigið brjóst og það þarf nokkuð til þess.