Spilliefnagjald

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:55:25 (2556)

1996-01-30 16:55:25# 120. lþ. 79.3 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:55]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir frv. til laga um spilliefnagjald sem flutt er á þskj. 392 og er 252. mál þingsins.

Frv. til laga um spilliefnagjald, þ.e. sérstakt gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum, er samið í umhvrn. Það var fyrst lagt fram á 117. löggjafarþingi til kynningar en hlaut ekki afgreiðslu þá. Hér er þetta frv. endurflutt í nokkuð breyttri mynd. Við undirbúninginn að gerð frv. var m.a. haft samráð við Samtök iðnaðarins, Vinnuveitendasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, fjmrn., Hollustuvernd ríkisins og þá aðila sem sjá um meðhöndlun spilliefna hér á landi.

Frv. þetta var unnið í nánu samráði við atvinnulífið og óskir þess. Mér finnst vert að geta þess hvað það samstarf hefur verið markvisst og í raun ánægjulegt. Ég lít svo á að breið samstaða sé um frv. þetta eins og það birtist hér.

Verði frumvarpið að lögum mun það færa mjög mikla ábyrgð til atvinnulífsins sem hefur mikilla hagsmuna að gæta að verkefni það sem frumvarpið fjallar um verði leyst vel af hendi og á sem hagkvæmastan hátt.

Spilliefni er hvers kyns sérstakur úrgangur, hættulegur úrgangur sem inniheldur tiltekin efni, eða er mengaður af þeim á þann hátt og í slíku magni eða af slíkum styrkleika að það geti stofnað eða stofni heilsu manna eða umhverfi í hættu. Hér má til að mynda nefna ýmsan olíuúrgang, lífrænan leysiefnaúrgang og annan lífrænan efnaúrgang, úrgang sem inniheldur þungmálma og þrávirk efni, skordýraeitur og rotvarnarefni, efnaúrgang frá rannsóknastofnunum og útrunnin lyf.

Hætta sem stafar af spilliefnum er margvísleg og alvarleg. Þessi efni geta við ranga meðhöndlun komist út í umhverfið svo sem í vatn og sjó og þannig átt greiðan aðgang í fæðukeðjuna. Mörg þeirra eru þannig að þau safnast auðveldlega upp í náttúrunni. Mjög brýnt er að taka á þessum vanda og gera þeim aðilum sem eiga að sinna þessu verkefni mögulegt að gera það. Fullyrða má að spilliefnin séu einn alvarlegasti mengunarvaldur hér á landi, ekki síst olíuúrgangur sem er langsamlega stærsti þátturinn.

Það er rétt í þessu sambandi að gera lítillega grein fyrir framkvæmd sorphirðu hér á landi. Skv. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, eru sorphreinsun og sorpeyðing verkefni sveitarfélaga. Skylt er að halda einstökum spilliefnum aðgreindum frá öðrum úrgangi. Í stórum dráttum hefur framkvæmdin hvað spilliefni varðar verið með þeim hætti að sorpmóttökustöðvar einstakra sveitarfélaga hafa tekið á móti þeim og séð um meðhöndlun þeirra eða flutning til þeirra aðila sem hafa fullnægjandi aðstöðu til þess að taka á móti þeim. Vegna þeirrar mengunarhættu sem stafað getur af spilliefnum er meðhöndlun þeirra að jafnaði flókin og kostnaðarsöm. Kostnaðurinn er ýmist greiddur úr sjóðum einstakra sveitarfélaga eða sveitarfélög hafa farið þá leið að leggja á almennt sorphirðugjald eða innheimt gjöldin með sérstökum gjaldskrám sem einstök fyrirtæki hafa þurft að greiða eftir þegar efnunum er skilað. Þetta fyrirkomulag hefur því miður haft í för með sér að einungis litlum hluta spilliefna er skilað til móttökustöðva.

Hér á landi liggja fyrir upplýsingar um magn spilliefna sem skilað hefur verið til móttökustöðva allt frá árinu 1990. Hins vegar eru ekki til nákvæmar upplýsingar um það magn spilliefna sem fellur til hér ár ár hvert. Árið 1991 lagði danskt ráðgjafarfyrirtæki mat á magn spilliefna hér á landi. Með hliðsjón af niðurstöðum danska fyrirtækisins, mati Hollustuverndar ríkisins og umhvrn. er miðað við að til falli um 4.500 tonn af spilliefnum frá atvinnurekstri og heimilum í landinu árlega. Verði frv. að lögum er þeim ekki ætlað að taka á uppsöfnuðum vanda. Gert er ráð fyrir að uppsafnaður vandi sé ekki verulegur ef frá eru taldir ónýtir rafgeymar. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að hér á landi séu um 3.000 til 4.000 tonn af ónýtum rafgeymum. Brýnt er að leysa þessi mál með samkomulagi þeirra aðila er málið varðar áður en frumvarpið verður að lögum eða einstakir þættir laganna koma til framkvæmda. Vinnuveitendasamband Íslands hefur þegar nefnt þetta atriði við umhvrn.

Spilliefnum hefur verið skilað til móttökustöðva að undanförnu en mikill hluti hefur því miður farið á hauga eða í fráveitur. Stefnt er að því með frv. að koma eins og hægt er í veg fyrir mengun af völdum spilliefna. Ófullnægjandi meðferð og eyðing spilliefna skapar hættu, m.a. fyrir matvælaframleiðslu. Verði frv. þetta að lögum er verið að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, endurnýtingu og förgun spilliefna og leggja þannig grunn að skipulagðri söfnun spilliefna fyrir landið allt.

Meðal helstu markmiða ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum er að stefna að aukinni endurnýtingu og bættri förgun úrgangs og beita til þess umhverfisgjöldum í ríkari mæli. Í frv. er leitast við að útfæra svokallaða mengunarbótareglu á þann hátt að hún hvetji til betri söfnunar og meðferðar spilliefna. Í mengunarbótareglunni felst að þeir sem menga umhverfið eða spilla því greiði kostnað af aðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir umhverfisskaða. Það fyrirkomulag sem er í dag, þ.e. að greiða fyrir móttöku og förgun spilliefnanna þegar komið er með efnin til förgunar, er letjandi þótt það byggist einnig á mengunarbótareglunni. Markmið frv. er að koma í veg fyrir umhverfismengun af völdum spilliefnanna með því móti að einstaklingar og lögaðilar skili spilliefnunum til viðurkenndra móttökustöðva.

Leiðin sem valin er í frv. á að tryggja að á hverjum tíma sé fyrir hendi fé til að standast straum af kostnaði við venjulega meðhöndlun, eyðingu og flutning spilliefnanna til móttöku- eða eyðingarstöðvanna. Stefnt er að því að einstaklingar og lögaðilar sem skila spilliefnum til móttökustöðva þurfi að jafnaði ekki að greiða fyrir þjónustuna enda hafi sérstakt gjald verið lagt á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Í frv. er valin sú leið að leggja á sérstakt spilliefnagjald er standi undir kostnaði við söfnun, meðhöndlun og eyðingu eða endurvinnslu eða endurnýtingu spilliefna að því marki sem nánar er kveðið á um þar. Í samráði við Samtök iðnaðarins og Vinnuveitendasamband Íslands er lagt til að gjaldinu verði skipt í flokka og að sem flestir þættir sem tengjast verkefninu verði boðnir út til að ná fram ýtrustu hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að uppgjör fari fram samanber tollflokka eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og að gjald verði lagt á einstaka tollflokka og síðan leiðrétt samkvæmt uppgjöri. Þannig er leitast við að miða gjaldið við raunverulegan kostnað við eyðingu eða endurnýtingu einstakra efna eða efnaflokka.

[17:00]

Verði frv. að lögum mun söfnun spilliefna aukast umtalsvert. Bætt skil til móttökustöðva munu stuðla að frekari umhverfisvernd og tryggja örugga meðhöndlun þessara efna. Til þess að hægt sé að koma á skipulegri söfnun spilliefnanna þarf að tryggja nægjanlegt fjármagn til að standa undir þeim kostnaði sem fylgir endurnýtingu eða eyðingu þeirra. Frv. sem hér er lagt fram er ætlað að stuðla að því. Þegar kostnaður við endurnýtingu og eyðingu spilliefna er metinn verður m. a. að taka mið af kostnaði við eftirfarandi rekstrarþætti þ.e. flutning, meðferð, flokkun og pökkun. Hingað til hafa spilliefni, sem eytt hefur verið eða endurnýtt með viðunandi hætti, að mestu leyti verið flutt til útlanda til eyðingar. Hluta þeirra hefur þó verið eytt hér en möguleikum til að eyða spilliefnum innan lands hefur fjölgað.

Kostnaður við meðhöndlun og eyðingu spilliefna fer eftir tegundum. Efnin eru sett saman á ólíkan hátt og misjafnlega flókið að eyða þeim. Þetta hefur í för með sér að eyðingarkostnaður er ekki alltaf sá sami. Enn fremur er misjafnt hversu hátt hlutfall af tiltekinni vöru verður að spilliefnum eins og fyrr hefur verið rakið.

Við vinnslu frv. var reynt að meta hve hátt gjald, sem greiða þarf við innflutning, þarf að vera fyrir einstaka vöruflokka. Í fyrsta kafla frv. er fjallað um markmið og gildissvið og vörur sem geta orðið að spilliefnum skilgreindar. Til þess að standa straum af kostnaði við söfnun, meðhöndlun og endurnýtingu eða eyðingu spilliefna er kveðið á um að heimilt sé að leggja sérstakt gjald, spilliefnagjald, á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Skylda til að greiða spilliefnagjald hvílir á öllum þeim sem flytja til landsins slíkar vörur hvort sem þær eru til eigin nota eða endursölu og öllum innlendum aðilum sem framleiða þessar vörur.

Ákvæði er í frv. um að ráðherra skipi spilliefnanefnd til fjögurra ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti sex menn, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn af Samtökum iðnaðarins, einn af Alþýðusambandi Íslands og einn eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Kveðið er á um að spilliefnanefnd skuli gera áætlun um hvernig best verði staðið að söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu spilliefnanna. Nefndin skal hafa náið samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila um skilgreiningu markmiða hvað einstök viðfangsefni varðar og um val á aðferðum til að ná settum markmiðum.

Í II. kafla frv. er fjallað um spilliefnagjald. Gjaldið skal standa undir óhjákvæmilegum kostnaði af söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu spilliefnanna og lýtur stjórn spilliefnanefndar. Gjaldinu skal skipt í flokka og skal hver flokkur vera fjárhagslega sjálfstæður. Að fengnum tillögum spilliefnanefndarinnar skal umhvrh. kveða nánar á um skiptinguna í reglugerð. Gjaldinu skal varið til greiðslu kostnaðar vegna móttöku spilliefnanna, meðhöndlunar, flutnings frá söfnunarstöðvum, til eyðingarstöðva og eyðingar enda hafi verið greitt sérstakt gjald af viðkomandi vöru. Jafnframt skal því varið til greiðslu kostnaðar við framkvæmd laga þessara. Spilliefnanefnd skal semja við þar til bæran aðila um vörslu og ávöxtun gjaldsins.

Ársreikningar skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum spilliefnanefndar skal kveða á um hlutverk nefndarinnar, starfshætti og úthlutunarreglur. Ákvæði er um að spilliefnanefnd skuli að jafnaði bjóða út söfnun, meðhöndlun og eyðingu einstakra spilliefnaflokka til allt að fimm ára í senn. Á grundvelli útboðs skal nefndin semja um endurgjald vegna móttöku, söfnunar, flutnings og eyðingar og meðhöndlunar á spilliefnunum. Skal þetta gert fyrir landið allt eða einstök landsvæði eða vegna framkvæmda einstakra verkþátta eftir því sem henta þykir. Við gerð áætlana og samninga samkvæmt framanskráðu skal við það miðað að ná sem mestum árangri með sem minnstum tilkostnaði. Þar sem útboð tekst ekki skal spilliefnanefnd gera tillögur um upphæð gjalda.

Í III. kafla frv. er kveðið á um hvaða vörur eru gjaldskyldar og hvert er hámarksgjaldið sem heimilt er að leggja á samanber 6. gr. frv. Gjaldskylda nær til allra vara sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar hér á landi. Spilliefnagjald skal lagt á olíuvörur, þ.e. svartolíu og aðra olíu en brennsluolíu, lífræn leysiefni, halógeneruð efnasambönd, ósoneyðandi efni og ísósyanöt, málningu og litarefni, rafhlöður og rafgeyma, framköllunarvökva og svokallaða fixera, sem eru kallaðir festar á íslensku, og ýmsar aðrar efnavörur.

Ráðherra skal, að fenginni tillögu spilliefnanefndar, ákveða með reglugerð upphæð gjaldsins á vörur í vöruflokkum skv. 2. mgr. Nefndin skal miða tillögur sínar við áætlun um söfnun, endurnýtingu og eyðingu viðkomandi spilliefna á grundvelli útboða og verksamninga, svo og að tekjur og gjöld í hverjum flokki, sbr. 1. mgr., standist á. Að fengnum tillögum spilliefnanefndar er ráðherra heimilt í reglugerð að undanþiggja einstakar vörur gjaldskyldu.

Kveðið er á um í 8. gr. frv. að fyrir spilliefni, sem verða til hjá einstaklingum og lögaðilum og ekki eru til komin vegna notkunar á vörum sem getið er í 6. gr., skal greiða gjald til móttökustöðva í samræmi við þann kostnað sem af eyðingunni hlýst. Hér má t.d. nefna ryk frá hreinsibúnaði iðnfyrirtækja og eiturefni sem hreinsuð hafa verið úr hráefnum. Það er mikilvægt að ná utan um þessi efni á þennan hátt þar sem þessi spilliefni eru ekki úrgangur í tengslum við tiltekna vöru sem flutt er inn eða framleidd hér á landi. Atvinnurekstur sem telst geta haft í för með sér mengun er háður starfsleyfi samkvæmt mengunarvarnareglugerð og þar er kveðið á um hvernig fylgjast skuli með meðferð spilliefnanna.

Í IV. kafla frv. eru ýmis ákvæði. Kveðið er á um að ráðherra skuli, að fengnum tillögum spilliefnanefndar, ákveða í reglugerð með hvaða hætti spilliefnum skuli skilað til móttökustöðva, svo og um fyrirkomulag útboða skv. 5. gr. Í reglugerðinni skal birta skrá yfir vörur sem geta orðið að spilliefnum, tollskrárnúmer þeirra og heiti, sbr. 6. gr. Uppfylli umbúnaður og samsetning spilliefna ekki settar reglur er ráðherra heimilt, samkvæmt tillögum spilliefnanefndar, að ákveða með gjaldskrá sérstakt gjald í móttökustöðvum fyrir meðhöndlun eða undirbúning spilliefna fyrir endurnýtingu eða eyðingu þeirra.

Jafnframt er ráðherra heimilt, að fengnum tillögum spilliefnanefndar, að kveða á um greiðslur til aðila ef umbúnaður eða úrvinnsla spilliefna sem þeir skila er með þeim hætti að það spari kostnað á síðari stigum.

Gert er ráð fyrir að verði frv. að lögum að þau öðlist þá þegar gildi. Í ákvæði til bráðabirgða er þó kveðið á um að innheimta gjalda skuli eigi koma til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1996 og ákvæði 5. gr. um greiðslu kostnaðar eigi fyrr en 1. des. 1996.

Heimilt er einnig samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða að fresta álagningu gjalda samkvæmt einstökum töluliðum 6. gr. eftir því sem spilliefnanefnd leggur til. Stefnt skal að því að álagningu gjalda verði komið á í áföngum og að fullu í síðasta lagi árið 2000. Spilliefnanefnd skal fyrir 15. júní 1996 skila tillögum að áætlun um framkvæmd álagningar á einstaka vöruflokka til umhverfisráðherra.

Hæstv. forseti. Vegna þessara dagsetninga sem ég hef hér talið upp og koma fram í frv. er auðvitað rétt að geta þess að gert var ráð fyrir því að mæla fyrir frv. þessu fyrir áramót og það tækist að hefja vinnu við það og vonandi afgreiðslu þess frá þinginu fyrr en nú stefnir í. Ég vona samt að það takist að ljúka frumvarpsvinnunni í nefndinni á þessu þingi og að það verði að lögum en auðvitað gæti þurft að breyta einhverjum af þessum ákvæðum um gildistöku með tilliti til þess hvenær þingið samþykkir frv.

Lagt er til í ákvæði til bráðabirgða að 6. gr. taki gildi áður en kemur til greiðslu kostnaðar við meðhöndlun og förgun spilliefna en með því móti er reynt að tryggja að þegar lögin koma að fullu til framkvæmda verði fyrir hendi fé til að standa straum af þeim kostnaði sem framkvæmdinni fylgir. Þetta er einnig eðlilegt í ljósi þess að einhver tími líður að jafnaði frá því að vörur eru fluttar til landsins þar til þær verða að spilliefnum. Þá er nauðsynlegt að einhver tími líði frá gildistöku laganna þar til innheimta gjalda getur hafist þar sem áður þarf að fara fram útboð á þjónustu sem ákvarða mun upphæð gjaldanna sem ákveðin verða með reglugerð. Þar sem óvissuþættir vegna kostnaðar við meðhöndlun og eyðingu spilliefnanna eru nokkrir þykir einnig rétt að lögin komi til framkvæmda í áföngum.

Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið ítarlegri framsögu um þetta frv. til laga um spilliefnagjald en hér er um að ræða nýmæli sem vert er að gera ítarlega grein fyrir. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.