Endurskoðun á kosningalöggjöfinni

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:34:50 (2557)

1996-01-31 13:34:50# 120. lþ. 80.1 fundur 103. mál: #A endurskoðun á kosningalöggjöfinni# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:34]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Fsp. mín til hæstv. forsrh. er eftirfarandi:

Hvað líður framkvæmd á því ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem segir markmið hennar vera ,,að endurskoða eigi kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún verði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæða milli kjördæma``?

Stjórnmálaflokkar eru sammála um nauðsyn þess að breyta kosningalöggjöfinni eins og allir muna síðan í síðustu kosningabaráttu. Meðal ungs fólks í stjórnmálaflokkunum er einnig breið pólitísk samstaða um þá kröfu að kosningalöggjöfin verði endurskoðuð. Nýleg sameiginleg ályktun allra stjórnmálahreyfinga ungs fólks er mjög athyglisverð en þar segir, með leyfi forseta:

,,Núverandi misvægi atkvæða er óþolandi brot á grundvallarmannréttindum. Kosningalög eru hornsteinn lýðræðis í hverju landi og þar eiga allir sitja við sama borð. Ekki má þó horfa fram hjá þeirri staðreynd að landsmönnum er mismunað eftir búsetu innan stjórnkerfisins. Það ber að taka á því en þessi mismunun verður aldrei leiðrétt með misjöfnu vægi atkvæða. Krafa okkar er að kosningalög tryggi mannréttindi og lýðræði en ekki hagsmuni stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna eins og nú er.``

Svona sterkt hefur ungt fólk í stjórnmálaflokkunum tekið til orða sameiginlega. Að mínu mati er kosningalöggjöfin grundvöllur að öllum meiri háttar ákvarðanatökum í þjóðfélaginu. Það er því mjög brýnt að meingallað kosningalöggjafarkerfi okkar verði endurskoðað hið allra fyrsta. Ástæður þess eru aðallega þær að núverandi misvægi atkvæða er algerlega ólíðandi. Til að mynda náði þingmaður kjöri við síðustu kosningar á 648 atkvæðum en ekki frambjóðandi með 3.248 atkvæði á bak við sig. Einnig er löggjöfin svo flókin að kjósandi hefur í raun ekki hugmynd um hver hagnast á atkvæði hans í hvert sinn. Kjósandi kýs ákveðið framboð í kjördæmi sínu en vegna flókinna reiknireglna er ekki tryggt að það atkvæði nýtist í kjördæmi kjósandans heldur getur það nýst framboði í allt öðru kjördæmi, jafnvel frambjóðanda sem kjósandinn er andsnúinn.

Ástæða þess að fyrirspurnin er lögð fram og þannig ýtt við ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstfl. og Framsfl., mínum eigin flokki, er sú reynsla sem við höfum á síðasta kjörtímabili. Þá var svipað ákveðið í hvítbók þáv. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. En hver varð árangurinn? Nánast enginn. Menn sváfu værum svefni þar til í desember 1994 eða rétt fyrir kosningar. Þá fyrst var sest niður og árangurinn varð eiginlega enginn og tímaskorti að sjálfsögðu um kennt. Þessi ferill má alls ekki endurtaka sig nú. Það er mjög brýnt að þessi vinna hefjist sem fyrst. Okkur veitir ekki af tímanum af því að flokkarnir eru með skiptar skoðanir, bæði á milli flokka og líka innan flokka. Við framsóknarmenn, t.d. sú sem hér stendur og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og hæstv. ráðherra Finnur Ingólfsson, höfum komið fram með hugmyndir um að gera landið að einu kjördæmi. Aðrir hafa ýmsar aðrar hugmyndir eins og okkar ágæti og hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, um að kjósa helminginn af þingmönnum á landslista og hina úr kjördæmum. Meðan skoðanir eru svo skiptar er brýnt að hefjast handa sem fyrst og því spyr ég:

Hvenær á að hefjast handa? Hvernig á að vinna málið? Á að undirbúa þetta mál í nefnd og hvernig á þá að skipa hana?