Endurskoðun á kosningalöggjöfinni

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:43:16 (2559)

1996-01-31 13:43:16# 120. lþ. 80.1 fundur 103. mál: #A endurskoðun á kosningalöggjöfinni# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:43]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þá fyrirspurn sem hér var lögð fram og eins þau svör sem gefin hafa verið af hálfu hæstv. forsrh. Ég tek undir þau meginsjónarmið sem komu fram hjá fyrirspyrjanda um það að hér erum við að ræða um grundvöll lýðræðisins, að við séum öll jöfn og að leikreglur meiri hluta og minni hluta séu að þessu leyti tryggðar eins og á öðrum sviðum eftir því sem mögulegt er. Ég hafna algerlega þeim röksemdum sem stundum hafa verið settar fram um það að jafna eigi aðstöðumun þegnanna eftir landshlutum eða hópum með því að breyta atkvæðavægi. Slíkt verður að leysa með öðrum hætti.

Ég tek undir það að tíminn er naumur og við verðum að vinna vel að þessu verkefni og tek undir þau sjónarmið að þetta er að sjálfsögðu mál þingsins alls. Án góðrar samvinnu, góðs vilja allra alþingismanna ásamt ríkisstjórninni tekst þetta mál ekki en ég hvet eindregið þá sem hlut eiga að máli til að hraða þessari vinnu sem allra mest þannig að við lendum ekki í tímahraki með svo mikilsvert mál.