Endurskoðun á kosningalöggjöfinni

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:44:49 (2560)

1996-01-31 13:44:49# 120. lþ. 80.1 fundur 103. mál: #A endurskoðun á kosningalöggjöfinni# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:44]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Mér heyrist á svari hæstv. forsrh. að nánast ekkert sé búið að huga að þessu máli. Ég get ekki túlkað svar hans öðruvísi. Það er tekið undir það að ekki veiti af tímanum og klukkan tifar. Mér fannst þetta svar frekar óljóst.

Það kom fram að gamla nefndin gæti starfað áfram en það kom líka fram að hugsanlega væri betra að skipa nýja. Ég átta mig ekki alveg á svarinu. Ég hefði viljað sjá vinnu fara í gang núna strax þar sem allar þessar leiðir væru skoðaðar sem hér hafa komið fram þó ég telji sjálf best að landið yrði gert að einu kjördæmi þar sem maður getur valið fólk af landslista og það væri einnig persónuval þannig að listanum væri ekki raðað upp. Hann væri þess vegna í stafrófsröð og síðan gæti kjósandinn sjálfur raðað upp listanum. Þetta mundi krefjast mjög mikils af frambjóðendum, þeir væru í prófkjöri allan tímann fram á kjördag, en ég tel að þetta yrði mjög gott val fyrir kjósandann. Hann þyrfti ekki að sætta sig við frambjóðanda sem væri ofarlega á lista sem honum líkaði ekki. Hann gæti sjálfur haft áhrif með atkvæði sínu.

Mig langar að ítreka spurningu mína til hæstv. forsrh.: Hvenær á þessi vinna að hefjast? Er hægt að segja eitthvað aðeins nánar um það?