Varnir gegn landbroti

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:58:27 (2566)

1996-01-31 13:58:27# 120. lþ. 80.2 fundur 212. mál: #A varnir gegn landbroti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:58]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að hreyfa þessu þarfa máli. Það er rétt sem hann segir að það er víða sem þarf að taka á varðandi landbrotsvarnir. Ekki bara á þeim stöðum sem hann og hæstv. ráðherra nefndu heldur einnig á Vesturlandi, Norðurlandi og víðar þar sem bíða milljóna og tugmilljóna framkvæmdir á þessu sviði. Ég vildi aðeins minna á það í þessari umræðu að það gilda engin lög um sjóvarnir í dag og að hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur ásamt fimm öðrum hv. þingmönnum flutt frv. til laga um sjóvarnir sem nú bíður 1. umr. hér á hv. Alþingi. Þar er gert ráð fyrir því að samgrh. skipi matsnefnd um sjóvarnir og að hún skuli starfa sem sjálfstæð ráðgjafarnefnd á vegum Hafnamálastofnunar. Umsóknir um framlög úr ríkissjóði til sjóvarna skulu sendar Hafnamálastofnun sem gerir áætlanir um sjóvarnir. Síðan fjallar matsnefnd um þessar áætlanir og metur styrki til þeirra. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði 7/8 hluta kostnaðar við undirbúning og framkvæmdir við sjóvarnir en landeigendur og sveitarfélög greiði það sem á vantar, þ.e. 1/8. Ég vildi aðeins koma því að við þessa umræðu að hér er á ferðinni frumvarp sem ég vona að fái greiða leið í gegnum Alþingi í vetur og verði að lögum áður en þessu þingi lýkur.