Upptökumannvirki til skipaviðgerða

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:07:48 (2572)

1996-01-31 14:07:48# 120. lþ. 80.3 fundur 223. mál: #A upptökumannvirki til skipaviðgerða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það má vera sökum þess að ég er tekinn að hníga að aldri og heyrn mín e.t.v. tekin að skerðast að ég náði ekki nema u.þ.b. 10% af því sem hæstv. samgrh. las í örskjótu svari sínu. En ég þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir að drepa á þetta mál. Staðreyndin er sú að Reykjavíkurhöfn er umfangsmesta höfn landsins. Hún hefur mikla möguleika á að draga aukinn gjaldeyri til Íslands en hún hefur hins vegar verið afskipt. Það er alveg ljóst að þegar verið er að styrkja byggðarlög út á landi til að kaupa upptökumannvirki og til að gera ýmislegt fleira sem lýtur að starfsemi sem því tengist er auðvitað um að ræða beina aðstoð til fyrirtækja á því svæði. Við sem erum mjög skeleggir kjördæmisþingmenn, ég og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, hljótum auðvitað að setja spurningarmerki við þetta. Samkvæmt hafnalögum styrkir ríkissjóður nýframkvæmdir í hafnargerð. Reykjavíkurhöfn er eina höfnin á Íslandi sem nýtur þeirra ekki. Yfirvöld í Reykjavík hafa lengi vel ekki gert neinar athugasemdir við þetta en það er hins vegar alveg ljóst að framhald slíkra styrkja mun skekkja samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hér eru í Reykjavík.