Upptökumannvirki til skipaviðgerða

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:13:50 (2576)

1996-01-31 14:13:50# 120. lþ. 80.3 fundur 223. mál: #A upptökumannvirki til skipaviðgerða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:13]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það kom mér kannski ekki á óvart að Framsfl. væri kominn á mölina. En það heyrðist mér á hv. fyrirspyrjanda, þingmanni Framsfl. í Reykjavík, að afkastagetan í skipasmíðaiðnaðinum í Reykjavík væri svo mikil að réttast væri bara að leggja þessa atvinnugrein niður annars staðar á landinu. Ég hélt nú að flestum væri kunnugt að Slippstöðin á Akureyri hefur löngum verið öflugasta fyrirtæki bæði í skipasmíðum, skipaþjónustu og skipaviðgerðum hér á landi. Þetta er raunar í fyrsta skipti sem ég hef heyrt við því amast að reynt sé að halda við þeirri tækniþekkingu sem er þar nyrðra og talað um að ástæðulaust sé að styrkja undirstöður greinarinnar þar fyrir norðan sem í sumum árum hefur verið sá staður sem hefur haldið uppi járnsmíðum hér á landi. Stundum hafa járnsmíðar og plötusmíðar ekki verið kenndar í Reykjavík sökum þess að skort hefur nemendur en hins vegar kennt fyrir norðan. Ég man ekki betur en að ég hafi séð það í Degi nú nýlega að hin nýja flotkví fyrir norðan væri sérstakt afkvæmi Framsfl. og hann stæði heill og óstuddur á bak við þessa miklu og nýju fjárfestingu í skipasmíðaiðnaðinum norður þar. Og að ég auminginn væri að fljúga á stolnum fjöðrum þegar ég væri að minnast á þetta mikla ágæti þeirra framsóknarmanna norður þar. En eins og ég sagði áðan þá virðist Framsfl. kominn á mölina.

[14:15]

Auðvitað er það svo að allt breytist. Skipasmíðaiðnaðurinn hefur verið í öldudal og hann hefur átt sína toppa. Nú er ástandið þannig að hin mikla og nýja fjárfesting t.d. fyrir norðan hefur skilað sínu. Það eru mikil umsvif í Slippstöðinni á Akureyri. Þangað vantar járnsmiði, plötusmiði og aðra kunnáttumenn. Við fáum til landsins viðskipti sem án flotkvíarinnar hefðu verið óhugsandi. Að þessu leyti er skýrslan auðvitað úrelt. Hún á ekki við og það er gagnslaust að vera að tala um hana héðan af, best að gleyma henni.