Ferjuflug um Keflavíkurflugvöll

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:16:55 (2577)

1996-01-31 14:16:55# 120. lþ. 80.4 fundur 244. mál: #A ferjuflug um Keflavíkurflugvöll# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:16]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði fyrirspurn til hæstv. samgrh. um flutning svokallaðs ferjuflugs til Keflavíkurflugvallar. Fyrirspurnin er fram borin af þeim sem hér stendur ásamt hv. þm. Drífu Sigfúsdóttur, en hún sat á þingi þegar fyrirspurninni var dreift.

Almennt er viðurkennt að ferjuflug, þ.e. flug lítilla flugvéla milli Evrópu og Ameríku, sé áhættusamt flug enda flugvélakosturinn að öllu jöfnu ekki ætlaður til langflugs í misjöfnum veðrum. Við höfum líka mýmörg dæmi um óhöpp og slys sem orðið hafa á þessum vettvangi á liðnum árum. Í skýrslu sem tekin var saman á vegum samgrn. árið 1991 kemur m.a. fram að samkvæmt mati Alþjóðaflugmálastofnunar fullnægir Reykjavíkurflugvöllur ekki ákvæðum um öryggisatriði vegna ferjuflugs. Þetta mun vera staðfest í nýútkominni skýrslu frá Almennu verkfræðistofunni hf. þar sem kveðið er á um að engin flugbraut Reykjavíkurflugvallar muni uppfylla þessi tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunar. Kemur þar fyrst til nálægð vallarins og aðflugsreina hans við byggð. Íbúum höfuðborgarinnar er með öðrum orðum hætta búin af hinum tíðu lendingum og flugtökum ferjuflugs í Reykjavík.

Þá er kunnara en frá þurfi að segja að hið bágborna ástand brautanna á Reykjavíkurflugvelli eykur enn frekar á áhættuna. Í raun þyrfti ekki fleiri rök í málinu. Öryggisþáttur hlýtur ávallt að vega þyngst í öllu mati. Hér er ekki bara um að ræða öryggi flugmanna heldur og öryggi íbúa Reykjavíkur og jafnvel Kópavogs. Af þeirri ástæðu er rökrétt að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir flutningi ferjuflugs frá Reykjavík. Þá er eðlilegt að spurt sé hvert flytja ætti þessa flugstarfsemi. Þar kemur aðeins til greina af sömu rökum Keflavíkurflugvöllur. Rökin eru þessi:

1. Öryggisbúnaður þar er mun fullkomnari en í Reykjavík.

2. Keflavíkurflugvöllur er ekki aðþrengdur af byggð.

3. Ástand vallarins, einkum flugbrautanna, er sérlega gott.

4. Sá flugvöllur stenst kröfur Alþjóðaflugmálastofnunar um ferjuflug.

5. Eftirliti þar er til muna betur hagað en á Reykjavíkurflugvelli enda um afmarkað og lokað svæði að ræða. Benda má á að Keflavíkurflugvöllur er á lokuðu svæði en í Reykjavík er almenn umferð mikil nærri flugvélunum. Má í þessu sambandi benda á öryggi með vélunum sem eignum og þá ekki síður möguleika á fíkniefnasmygli, vopnasmygli o.s.frv. Aðstæður allar til að sinna slíku eftirliti eru margfalt betri í Keflavík.

6. Það er almennt mat íslenskra flugrekstraraðila að ferjuflugið sé betur sett í Keflavík en í Reykjavík.

Hér hafa rök verið nefnd og því er hæstv. samgrh. spurður hvort hann hyggist beita sér í krafti embættis síns fyrir flutningi ferjuflugs frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar.