Ferjuflug um Keflavíkurflugvöll

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:22:00 (2579)

1996-01-31 14:22:00# 120. lþ. 80.4 fundur 244. mál: #A ferjuflug um Keflavíkurflugvöll# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:22]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin þó ekki sé ég að öllu leyti sáttur við þau. Hæstv. ráðherra nefndi hér þjónustumiðstöð sem upp er að rísa á Keflavíkurflugvelli einmitt til þess að þjóna hinum minni flugvélum. Ég minntist ekki á þá þjónustumiðstöð í ræðu minni og er hún ekki ástæða fyrirspurnar minnar heldur fyrst og fremst þau öryggisatriði og þau rök sem nefnd voru og tengjast öryggisþáttum. Að því leytinu til eru það mér vonbrigði að ekki skuli standa til að flytja þetta flug til Keflavíkur og ég minni enn á að það mun vera mat Alþjóðaflugmálastofnunar að Reykjavíkurflugvöllur, vegna nálægðar við byggð, uppfylli ekki tilmæli hennar um öryggisþætti.

Þá hafa ferjuflugmenn þeir sem hingað koma kvartað undan eftirliti, eða öllu frekar skorti á eftirliti. Þá má líka nefna að í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli eru nú hvorki meira né minna en aðaleldsneytisgeymslur höfuðborgarsvæðis, eins og eitt stykki ráðhús, Alþingishús, helstu bankastofnanir og mikilvægar stjórnsýslubyggingar sem eru í rauninni í hættu því að hætta í flugi mun vera mest í aðflugi og flugtaki. Þess vegna lýsi ég vonbrigðum mínum með þau svör að ekki standi til að flytja ferjuflugið til Keflavíkur af öryggisástæðum.