Kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:29:33 (2582)

1996-01-31 14:29:33# 120. lþ. 80.5 fundur 236. mál: #A kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:29]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 318 hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beint til mín tveimur fyrirspurnum vegna kvikmyndaauglýsinga í sjónvarpi. Hin fyrri hljóðar svo:

,,Telur ráðherra að kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi, þar sem sýnd eru ofbeldisatriði úr kvikmyndum sem bannaðar eru börnum, samrýmist ákvæðum samkeppnislaga, sbr. sérstaklega 22. gr.?``

Nei. Ég tel að margar þessara auglýsinga samræmist ekki 22. gr. samkeppnislaga, en þar segir m.a. eins og hv. þm. hefur rifjað upp:

,,Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.``

Þeir sem hafa horft á þessar auglýsingar hljóta að geta verið sammála um að í fjölda þeirra eru ofbeldisatriði sem alls ekki eru við hæfi að barna. Síðari spurningin hljóðar svo:

,,Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra aðhafast í málinu?``

Í tilefni þessara fyrirspurna hef ég aflað mér upplýsinga hjá Samkeppnisstofnun um hvað samkeppnisyfirvöld hafi aðhafst í málinu.

Á fundi ráðgjafarnefndar samkeppnisráðs, þ.e. auglýsinganefndar, þann 21. mars 1995 var fjallað um auglýsingar frá kvikmyndahúsunum í sjónvarpi þar sem sýnd eru kvikmyndaatriði sem ekki hæfa börnum. Í framhaldi af fundinum sendi Samkeppnisstofnun bréf til Ríkisútvarpsins og kvikmyndahúsanna í Reykjavík þar sem þeim tilmælum var beint til þeirra að virða ákvæði 22. gr. samkeppnislaganna. Tilmælin báru árangur sl. vor en að undanförnu hafa auglýsingar með kvikmyndaatriðum sem ekki hæfa börnum tekið að birtast aftur og nú einnig frá myndbandaleigum. Því var ákveðið á fundi auglýsinganefndar Samkeppnisstofnunar 11. des. 1995 að ítreka fyrri tilmæli. Samkeppnisstofnun sendi síðan tilmæli um að virða 22. gr. samkeppnislaga til allra sjónvarpsstöðva, kvikmyndahúsa í Reykjavík og samtaka myndbandaleiga þar sem jafnframt var bent á þau viðurlög sem unnt er að beita til að framfylgja lögunum. Viðurlögin eru að samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði 22. gr. samkeppnislaga og fylgt banninu eftir með dagsektum.

[14:30]

Skömmu eftir að hin ítrekuðu tilmæli voru send fyrrgreindum aðilum barst samkeppnisráði bréf frá umboðsmanni barna, dags. 17. jan. Í bréfinu er m.a. bent á þau skaðlegu áhrif sem ofbeldi í kvikmyndahúsum getur haft á börn og telur umboðsmaður því brýnt að samkeppnisráð grípi til þeirra úrræða sem því eru tiltæk til þess að banna auglýsingar af þessu tagi. Í framhaldi af bréfi umboðsmanns barna kom auglýsinganefnd saman og mér er kunnugt um að hún hefur í undirbúningi tillögur sem ræddar verða á fundi samkeppnisráðs sem verður haldinn í byrjun næstu viku. Niðurstöðu þess fundar vil ég bíða.

Ég tel brýnt að reynt verði að ná samkomulagi um það milli þeirra aðila sem að þessu standa að stemma stigu við þessu án þess að þurfa að beita þeim ákvæðum sem hægt er að beita á grundvelli samkeppnislaganna til þess að stöðva þetta, þ.e. banninu og dagsektunum. Áður en það verði gert tel ég rétt að það reyni á hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi eins og tókst í upphafi síðasta árs. Takist það hins vegar ekki eru auðvitað engin önnur úrræði til en að beita ákvæðum samkeppnislaga sem þar eru heimiluð.