Kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:33:20 (2583)

1996-01-31 14:33:20# 120. lþ. 80.5 fundur 236. mál: #A kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:33]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og jafnframt fagna ég því að hæstv. viðskrh. hefur þegar beitt sér í málinu sem og umboðsmaður barna. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að það hefur verið yfirgengilegt að fylgjast með auglýsingum í sjónvarpi nú um alllangt skeið. Það eru ekki aðeins börn sem eru viðkvæm fyrir atriðum af því tagi sem verið er að sýna, þar er ekki síst gamalt fólk. Þetta efni á ekkert erindi inn í sjónvarp allra landsmanna eða hvaða sjónvarpsstöð sem er á þeim tíma þegar fólk horfir almennt á sjónvarp.

Hæstv. forseti. Ég minni á að það eru í gildi lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum þar sem segir m.a., með leyfi forseta: ,,Bannað er að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir.`` Jafnframt segir í 1. gr.: ,,Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum.`` Ég tel að þessi lög hafi verið gróflega brotin og það vekur þá spurningu hvernig þeim er framfylgt. Þau heyra undir hæstv. menntmrh.