Ofbeldisefni í fjölmiðlum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:40:50 (2586)

1996-01-31 14:40:50# 120. lþ. 80.6 fundur 235. mál: #A ofbeldisefni í fjölmiðlum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, bera sjónvarpsstöðvar fulla ábyrgð á eigin útsendingum. Hins vegar hafa stjórnvöld á síðustu árum unnið að því að setja reglur sem hafa það að markmiði að stemma stigu við vaxandi ofbeldi í fjölmiðlum.

Ísland er aðili að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ný lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995, sem voru samþykkt á Alþingi sl. vor hafa tekið gildi. Með þeirri lagasetningu voru felld saman í heildstæða löggjöf ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og ákvæði um skoðun kvikmynda til að meta sýningarhæfni þeirra fyrir börn.

Í 1. gr. laganna segir að bannað sé að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir. Enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda. Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum. Hin nýju lög við bann við ofbeldiskvikmyndum eiga að sjálfsögðu einnig við um fjölmiðla.

Hin íslenska löggjöf um þessi efni verður að teljast harla ströng miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og hæpið að lengra verði komist eftir þeim leiðum. Stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að sjá til þess eftir fremsta megni að gildandi lagaákvæðum sé framfylgt en meginatriði er að fjölmiðlar og ekki síst foreldrar og aðrir forráðamenn barna finni til þerrar ábyrgðar sem hvílir á þeim í þessum efnum. Samvinna allra þessara aðila er forsenda þess að árangri verði náð.

Að því er sjónvarpsstöðvar varðar gera lög ráð fyrir ákveðnu samráði milli þeirra og kvikmyndaskoðunar þótt stöðvarnar beri sjálfar ábyrgð á dagskrárefni sínu eins og áður var sagt. Kvikmyndaskoðun hefur í ábendingum sínum til sjónvarpsstöðva einkum lagt áherslu á eftirfarandi atriði:

1. Að efni séð raðað í dagskrá með tilliti til áhorfstíma barna og ofbeldiskenndu efni valin staður sem seinast á dagskrá.

2. Að viðvaranir um dagskrárefni séu samræmdar og fylgi allri dagskrárkynningu.

Að mati kvikmyndaskoðunar hefur skort nokkuð á að þessara atriða sé nógu vel gætt ekki síst hjá Ríkisútvarpinu. Árangursríkast til að draga úr grófu ofbeldisefni í fjölmiðlum væri vafalaust ef takast mætti að efla með ungu kynslóðinni það viðhorf að slíkt efni sé ómerkilegt og ekki þess virði að eyða í það tíma frá öðrum áhugaverðari viðfangsefnum. Þar reynir enn á hlutverk og fordæmi foreldra. Einnig kann að þurfa að huga að því hvort efla beri fræðslu í skólum sem geti stuðlað að þessu markmiði og auðveldað börnum að átta sig betur á því myndmáli sem ber fyrir augu þeirra í fjölmiðlum og annars staðar.