Ofbeldisefni í fjölmiðlum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:43:44 (2587)

1996-01-31 14:43:44# 120. lþ. 80.6 fundur 235. mál: #A ofbeldisefni í fjölmiðlum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:43]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda spurninguna og hæstv. mennmrh. fyrir svörin. Mér er kunnugt um að hjá Ríkisútvarpinu er unnið eftir ákveðinni hugmyndafræði í þessu efni þar sem vandlega skuli þess gætt í öllum tilvikum að í sjónvarpsefni sérstaklega ætluðu börnum og unglingum sé ekkert það sem kunni augljóslega að efla ofbeldishneigð eða veikja almenna siðferðisvitund. Við vitum auðvitað að börn sjá fleira í sjónvarpi en barnaefni og líka fleira en foreldrarnir vilja. EBU, sem eru samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, hafa gefið út viðmiðunarreglur þar sem kemur fram að ekki megi á nokkurn hátt upphefja ofbeldi né hvetja til þess. Það er aftur annað mál að það er vissulega gert á köflum og það hlýtur að vera ætlast til þess að sjónvarpsstöðvar fari betur eftir mælikvörðum og viðmiðunum varðandi slík efni.

Almennt talað er nauðsynlegt að taka útvarpslögin öll til umræðu og það frv. sem kynnt hefur verið en ekki hefur fengist lagt fram á hv. Alþingi.