Skattareglur gagnvart listamönnum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 15:09:25 (2592)

1996-01-31 15:09:25# 120. lþ. 80.7 fundur 239. mál: #A skattareglur gagnvart listamönnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[15:09]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég varð fyrir vonbrigðum með svar hæstv. fjmrh. Vitaskuld er ekki verið að tala um persónur. Það er ekki verið að ræða um að fara í manngreinarálit. Ég dró fram skýrt bæði í framsögu minni og í fyrirspurninni að við erum að tala um starfsemi þessara einstaklinga. Vitaskuld eru mismunandi skattareglur gagnvart fyrirtækjum hér á landi alveg eins og dæmið sem ég tók til um álverið sannar. Ég bendi á að umsvif Bjarkar Guðmundsdóttur nema líklega milljörðum króna í plötusölu, framleiðslu, tónleikum og öðru slíku. Surningin er hvernig við getum verið með hluta af þessum viðskiptum hér í okkar umhverfi. Það er það sem málið snýst um. Ég sakna þess að hæstv. fjmrh. notaði ekki þetta tilefni með þessa ágætu einstaklinga til að hafa frumkvæði að því að gera íslensk skattalög og skattaumhverfi þannig úr garði að við getum laðað að starfsemi í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það eru margir þættir sem tengjast henni. Það er ekki bara söngur, það eru kvikmyndir og fleiri þættir sem fjöldinn allur af þjóðum hefur skapað skattalega umgjörð um til að styðja slíkan atvinnurekstur. Fyrirspurnin gaf hæstv. fjmrh. tilefni til að sýna frumkvæði í endurskoðun á skattalögum varðandi þetta efni. Hann gerði það ekki við þetta tækifæri en ég er þess fullviss að þegar hann hugleiðir málið betur sér hann að tilefni er til frekari skoðunar.