Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 10:35:08 (2596)

1996-02-01 10:35:08# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[10:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á þskj. 508 liggur fyrir frv. til laga um veitingu prestakalla. Þau sjónarmið komu fram mjög sterkt á síðasta ári að rétt væri að endurskoða gildandi lagaákvæði um veitingu prestakalla. Ég skipaði því sérstaka nefnd til að endurskoða lögin. Í nefndinni áttu sæti Markús Örn Antonsson framkvæmdastjóri, formaður nefndarinnar, Baldur Kristjánsson biskupsritari, Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, Guðríður Eiríksdóttir, sóknarnefndarformaður á Akureyri, séra Karl Sigurbjörnsson, sóknarprestur í Reykjavík og Sváfnir Sveinbjarnarson, prófastur á Breiðabólsstað. Ritari nefndarinnar var Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Nefndin skilaði tillögum að nýjum lögum um veitingu prestakalla. Þau lög fela í sér tvær breytingar frá gildandi lögum. Annars vegar er lagt til að stofnuð verði sérstök stöðunefnd sem skipuð verði fulltrúum þriggja aðila, fulltrúum frá Prestafélagi Íslands, guðfræðideild háskólans og fulltrúa sem tilnefndur verður af biskupi Íslands. Þessi nefnd á að gefa rökstudda umsögn um umsækjendur um prestsembætti, um menntun þeirra, framhaldsnám og starfsferil.

Í annan stað er ráð fyrir því gert að í öllum tilvikum verði skylt að auglýsa prestsembætti. Því aðeins komi köllun prests til álita að enginn hafi svarað auglýsingu um laust embætti. Að öðru leyti er lagt til að sömu reglur gildi um val presta eins og er í gildandi lögum.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.