Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 10:41:19 (2598)

1996-02-01 10:41:19# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[10:41]

Kristján Pálsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið mælt hér fyrir frv. um veitingu prestakalla. Það má segja að það komi upp á tíma þegar róstur innan kirkjunnar standa hvað hæst t.d. innan Langholtskirkjusafnaðar, en þar hafa menn deilt um hver skuli gera hvað. Rifjar það upp ýmislegt annað sem komið hefur upp í söfnuðum víða um landið á undanförnum mánuðum. Þótt hér sé ekki verið að tala um forræði innan kirknanna beinlínis er ljóst að þetta er angi af sama máli, þ.e. hvernig prestar eru ráðnir til starfa. Ég held að óhætt sé að fullyrða að fyrir söfnuðina almennt er óviðunandi að innan sama húss skuli margir geta ráðið, a.m.k. gengi aldrei til sjós að hafa marga skipstjóra á sama skipinu. Í þessu tilfelli höfum við séð að prestar sem ráðnir eru af dómsmrh. vilja fara eina leið á meðan sóknarnefndir sem ráða safnaðarheimilunum vilja fara aðra leið. Síðan fer allt í stál og enginn virðist átta sig á því hver það er sem á að ráða.

Mín skoðun er sú að nauðsynlegt sé að skera úr um það hvernig þessum málum verði skipað í framtíðinni, hverjir það séu sem eiga í raun að ráða yfir kirkjum þannig að einn geti ekki ráðið yfir öðrum hluta hússins á meðan annar ræður yfir hinum. Fyrir það fyrsta verður að úrskurða hver sé hæstráðandi. Spurningin er þá sú hvort ekki sé nauðsynlegt að annaðhvort ráði presturinn yfir öllu starfi safnaðarins og sóknarinnar eða sóknarnefndin. Prestur gæti þá verið starfsmaður sóknar og starfaði í umboði hennar.

Það hefur tíðkast í öðrum löndum að prestar séu ráðnir af sóknunum. Aftur á móti eru það ríkisstofnanir eða ríkið sem greiða viðkomandi laun, þó ekki beint heldur í gegnum sjóð sem sóknin fær umráð yfir í því skyni. Sóknarnefndin ræður prestinn, fær launin greidd í sjóð frá ríkinu og hefur þar með yfirumsjón með sókninni og þeim byggingum sem henni tilheyra og ræður þá hvernig mál skipast.

[10:45]

Það er óviðunandi að slíkar deilur um forræði geti jafnvel gengið mánuðum saman, öllum til armæðu og mikillar skapraunar. Ég tel nauðsynlegt að taka á þessu, í mínum huga er ekki eftir neinu að bíða með það. Ég mun beita mér fyrir því að breytingar verði gerðar sem lúta að því að skilgreina betur hverjir það eru sem stjórna söfnuðunum. Þannig yrði komið í veg fyrir deilur sem gera söfnuðinum sjálfum, safnaðarfólkinu og kristilegu lífi í þessu landi mikið ógagn. Ég held að það hljóti að vera öllum sem nálægt þessu koma mikið fagnaðarefni ef hægt væri að einfalda löggjöfina þannig að menn skildu hana til hlítar.