Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 10:46:35 (2599)

1996-02-01 10:46:35# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[10:46]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um veitingu prestakalla. Gerðar eru tvær breytingar sem báðar horfa til bóta að mínu viti á þessum lögum. Annars vegar á að skipa hæfnisnefnd til að kanna umsóknir og kynna sér hvort umsækjandi sé hæfur til að sinna því ábyrgðarstarfi sem prestsstarfið sannarlega er en hin breytingin lýtur að því sem fengið hefur miklu meiri umræðu í þjóðfélaginu, þ.e. að skylt sé að auglýsa öll prestaköll. Þetta hvort tveggja tel ég horfa til bóta. Inn í umræðuna hefur blandast deila sem hvorki hefur farið lágt eða leynt innan safnaðar austur í bæ, Langholtssöfnuði. Hv. þingmenn velta fyrir sér æviráðningu presta. Ég hygg að eðlilegt sé að ræða það mál og taka það upp á sama hátt og önnur mál er varða æviráðningu. Æviráðning innan kirkjunnar ætti að geta breyst engu síður en annars staðar í þjóðfélaginu.

Ég vil gera fyrirvara um það að færa ráðningarvaldið frá biskupi eða frá yfirstjórn kirkjunnar, og þá bæði frá kirkjumálaráðherra og biskupi, alfarið til safnaðanna. Það er í eðli sínu breyting sem miðar að því að hverfa frá þjóðkirkjufyrirkomulagi og yfir í safnaðarkirkjur, í ekklesíur. Það er stærra mál en svo að hægt sé að taka það í aukasetningu með lítils háttar breytingu á núgildandi lögum um val á sóknarpresti.

Spurningin um það hver ráði í kirkjunni er einmitt ástæðan fyrir því að biskup hefur leitað eftir sérfræðiáliti lögfræðiprófessors svo hann viti til hlítar hver staðan er. Það er nauðsynlegt að þessi mál séu ljós og skýr svo að fólk geti vel við unað, bæði starfsmenn safnaða og söfnuðir. Það er afar slæmt og hryggilegt þegar samskiptabrestur verður milli prests og safnaðar eða safnaða. Ég verð að segja að þrátt fyrir þau leiðindi sem málið í Langholtinu hefur valdið í þjóðfélaginu sýnir það jafnframt að kirkjan er áberandi í þjóðfélaginu og fólki er ekki sama hvernig gengur. Það er nauðsynlegt að iðka kristilegan kærleika í söfnuðunum og þess vegna er það enn meira harmsefni þegar svona fer. Það eru víða átök í þjóðfélaginu. Það er víða ósætti og ósamlyndi milli fólks í fyrirtækjum og stofnunum en ég hygg að ekkert hafi fengið aðra eins athygli og þetta mál á undanförnum mánuðum og jafnvel árum. Ég vona að því linni og það verði ekki til þess að spilla fyrir boðun fagnaðarerindis í þessu landi.