Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:04:42 (2603)

1996-02-01 11:04:42# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:04]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég með mínum málflutningi er ég alls ekki að taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanum í svokallaðri Langholtskirkjudeilu. Það er síður en svo. Ég er fyrst og fremst að benda á að við svo búið getur ekki staðið. Það er að sjálfsögðu hlutverk Alþingis að laga löggjöfina þannig að tiltölulega góð sátt geti verið um túlkun hennar og að hægt sé starfa innan hennar í friði og spekt. Þess vegna held ég að þetta mál sem kemur upp í Langholti verði óhjákvæmilega til umræðu vegna þess einnig að það hafa orðið mjög margar deilur innan kirkjunnar víða annars staðar á landinu sem hafa verið af svipuðu tagi.

Ég efa ekki að það séu margar góðar hugmyndir í frv. sem geta orðið til bóta. En ég er samt á þeirri skoðun, eins og fleiri ræðumenn að það eigi að færa meira vald til sóknanna og þær eigi að hafa meira um það að segja hver sé ráðinn prestur en þær hafa haft hingað til. Þær eiga líka að hafa eitthvað um það að segja hvort presturinn geti orðið áfram ef söfnuðinum líkar ekki eða söfnuðinum og prestinum kemur ekki saman. Það er sama lögmál sem gildir um það mál og aðra starfsmenn.

Auðvitað er þetta viðkvæmt og þarf að ræðast sem slíkt og allt er þetta hið mesta sómafólk sem við erum að ræða um. Ég held samt að þegar biskup þarf að leita álits um það hver ráði hverju og hver eigi að gera hvað og hann leitar til prófessors úti í bæ, þá hlýtur að vanta eitthvað á löggjöfina. Við vitum að það geta komið mjög mismunandi álit frá lögfræðingum þannig að það eru engan veginn nein úrslit í málinu þó það komi álit frá lögfræðingi til biskups um það hvað hann eigi að gera í þessari einu deilu. En deilurnar hafa orðið vegna þess að söfnuðirnir eru að breytast. Svokölluð safnaðarheimili eru tiltölulega ný í kirkjusögunni. Kirkjuskipin hafa verið notuð en safnaðarheimilin hafa verið byggð á hinum síðari árum af söfnuðinum sjálfum. Þar hefur safnaðarstarfið farið fram. Starfsmenn safnaðarstjórnanna hafa sinnt því starfi meðan prestarnir hafa sinnt starfinu inni í kirkjuskipinu þannig að það kannski hefur vantað að skilgreina þarna á milli.

Eins og ég sagði áðan, þá hef ég aldrei getað áttað mig á því sem gamall sjómaður að það séu fleiri en einn skipstjóri um borð í hverju skipi. Það hefur greinilega sýnt sig í þessum deilum að þarna er vald svo ógreinilegt að menn vita ekki gjörla hver það er sem á að stýra skútunni í þá átt sem sá sem á að ráða telur rétt. Á þessum málum verðum við því að taka sameiginlega.

Varðandi það hvort prestar eigi að vera ráðnir í fimm ár í senn eða ekki þá er það alltaf spurning hvort það sé heppilegra heldur en að menn séu ráðnir ótímabundið og svonefnd æviráðning falli niður.

Ég mun innan allshn. að sjálfsögðu ræða þetta mál en samhliða því mun ég eins og ég sagði áðan vinna að breytingum sem geta orðið til þess að skýra hvernig þessi mál ættu að vera þannig að slíkar deilur rísi ekki aftur.