Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:44:04 (2607)

1996-02-01 11:44:04# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:44]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er um margt merkileg og að mínu mati mjög merkileg hvað varðar framgöngu og ræðu hv. 4. þm. Vestf. vegna þess að hv. þm., fyrrv. hæstv. viðskrh., fjallaði um frv. á þann veg að hann talaði einungis um það sem ekki er í frv. og hann er sammála um að eigi ekki að vera í því. Hann nefndi ekki einu einasta orði öll þau mörgu og mikilvægu atriði frv. sem varða viðskiptamál heldur lagði aðallega út af því að tilteknir hv. þm. Framsfl. hafa verið að reyna að slá sig til riddara með því að segja þjóðinni að þeir hafi bjargað einhverjum málum. Það er út af fyrir sig sérstakt mál og væri hægt að halda margar ræður um það.

[11:45]

Ég vil vekja athygli á þessu og spyrja hv. þm. Sighvat Björgvinsson um það hvað hann segir þá um ákvæði 29. gr. um heimild til að veðsetja greiðslumark bújarða sem á vissan hátt er sú auðlind sem bændur og eigendur bújarða verða að byggja á. Hver er munurinn á þeim heimildum sem frv. gerir ráð fyrir og varðar greiðslumark bújarða og hins vegar þeim aflaheimildum í sjónum sem þingmaðurinn telur að ekki sé eðlilegt að heimila að veðsetja? Fróðlegt væri að heyra afstöðu þingmannsins til þessa og þess vegna veiti ég hér andsvar.